Ég las góða grein eftir fluguhnýtara sem er alþjóðlega þekktur. Mér fannst greining góð og var að sammála flestu sem þar var sett á blað, einnig fannst mér hún lýsa vel meðgöngu og fæðingu frábærrar flugu og hverjir og hvað höfðu áhrif á þróun hennar.
Ég byrjaði því að þýða þessa grein og sendi jafnframt póst til þessa manns þar sem ég bið hann um leyfi til að birta þýðinguna. Ég sendi honum líka tengil á þetta blogg, þ.e.a.s. silungsveidi.is. Hann svarar fljótlega og segir að undir venjulegum kringumstæðum væri þetta auðsótt mál en hann hefði séð myndir af dauðum fiskum á síðunni og það gengi ekki því hann væri að hasla sér völl á sviði verndunar fiskistofna (fish conservation) og væri í samstarfi við félagasamtök/fyrirtæki á því sviði, allavega eitt af því sem þessi verndun gengur út á er veiða og sleppa aðferðafræðin. Hann sagði jafnframt að ef ég væri klókur myndi ég taka þessar myndir út og þá myndi hann hugsanlega endurskoða málið.
Þar sem ég er ekki mikið fyrir veiða og sleppa, álít að hægt sé að vernda stofnana með takmörkun á fjölda stanga og hugsanlega kvóta, þakkaði ég fyrir mig, sagði honum mína skoðun og kvaddi hann kurteislega. Það skal tekið fram að ég hef áður verið í samskiptum við þennan mann og hann var fljótur að svara svona “No Name from Iceland” og var í alla staði mjög þægilegur og kurteis maður, mér líkar líka ennþá mjög vel við hann.
Það sem mér finnst vera stóra málið í öllu þessu, allavega fyrir svona heima alinn veiðimann, alinn upp á Íslandi þar sem flestir veiða sér í soðið var þessi mikla pólítík sem býr undir öllu saman. Maður hafði ekki gert sér grein fyrir því hvað það er mikil pólítík í veiðimennskunni, ekki bara tiktúrur, mismunandi eftir mönnum, heldur heilu félagasamtökin um málið. Ég er ekki sammála því að það að sleppa fiskinum aftur sé eina verndunin sem hægt er að stunda…og ég er ekki að fara að starta hér einhverju stríði um v&s eða aðra aðferðafræði.
En sum sé þessi dulda, undirliggjandi pólítík sem við höfum kannski ekki orðið svo mikið varir hér uppi á skerinu var það sem kom mér á óvart!