Aðgát skal höfð í nærveru flugu

Ég las grein frá þekktum erlendum fluguhöfundi og veiðimanni um daginn.
Hann var að lýsa upplifun sinna á því hvað menn hefðu gert við fluguna hans.
Hann lýsti því hvernig nafn hans hefur verið skrifað á ótal vegu, hvernig nafn flugunnar hefur verið skrifað á ótal vegu og hvernig henni hefur verið breytt.

Hann segir um greinahöfunda í tímaritum: “Sem hnýtara hryggir það mig að sjá hvernig ein af mínum bestu flugum hefur verið lýst á rangan hátt. Sumar sögurnar eru um snjallar betrumbætur og aðra liti en ef það hefur ekki áhrif á endingu og floteiginleika flugunnar sé ég ekki neina raunverulega framför.

Hann talar einnig um tilurð flugunnar og hvernig aðrir veiðmenn og hnýtarar hafa áhrif og að sama hugmynd hafi verið komin fram áður hjá öðrum án þess að hann vissi um það. Leit hans að réttum aðferðum, réttum efnum og þróun flugunnar, í rauninni í nokkur ár áður en hann var orðinn fullkomlega ánægður með hana.

Þetta er akkúrat nútíminn í hnotskurn.

  • Ef maður kemur með nýja flugu er nokkuð öruggt að einhver hafi fengið sömu hugmynd einhvers staðar í heiminum
  • Sumir menn reyna að slá sig til riddara með því að koma fram með ný afbrigði sem eru líklega ekki að breyta neinu
  • Þetta er örugglega allt að gerast mun hraðar í dag en áður, fluga sem birt er á síðu einhversstaðar í bloggi eða á spjallsíðu getur hafa verið klónuð yfir í “nýja” flugu annars staðar á hnettinum daginn eftir.

Ég hef líka gerst sekur um að gera afbrigði af flugum eins og t.d. Nobbler með UV efnum, sumt er eðlileg þróun og hnýtingagleði, sumt óþarfi.

Það sem ég vildi koma fram að við eigum að bera virðingu fyrir flugunni, pælingum höfundar, tilraunum, efnisvali og þróun í gegnum árin, við viljum jú sjálfir að aðrir komi þannig fram við okkur.

 

 

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.