All posts by Silungsveiði

Steinbrúin yfir á engin í Elliðavatni

By | Veiðistaðir | No Comments

Það er gaman að fræðast um þá staði sem maður veiðir á. Elliðavatn hefur verið mér lengi hugleikið enda stutt að fara frá höfðuðborgarsvæðinu. Einn af mörgum stöðum  sem mér finnst skemmtilegir í vatninu er “stígurinn” sem er framan við Elliðavatnsbæinn sem liggur S laga út  í vatnið til vesturs, veiðimenn nota hann í dag  til  þess að komast lengra út í vatnið. Þetta  er stígur sem notaður var til þess að fara á þurrum fótum frá bænum yfir á engin. Myndin sem fylgir hér er tekin á sarpur.is,  Menningarsögulegt gagnasafn. Ég hef oft leitað á vefnum  að myndum af  engjunum eða þessum stíg yfir á engin og nú hef ég sem sagt fundið mynd af stígnum.
Þetta voru flatir steinar sem lagðir voru niður og mynduðu stíg út á engin, það voru fimm meterslöng bil á stígnum sem brúuð voru með timbur brúm á sumrin,  þetta hefur eflaust verið gert svona til að koma í veg  fyrir að stígurinn sópaðist burt með ís á vetrum.
Þegar vatnið var stíflað 1924 eða þar um bil (hef séð margar dagsetningar varðandi gerð stíflunnar) hækkaði vatnið um einn meter, á þessari mynd  er því vatnsstaðan lægri en hún er í dag, einnig sést að byggt  hefur verið við bæinn, hann er ekki eins og hann er í dag.

http://sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=631300

 

Loftmynd tekin af  map.is

gongustigur-yfir-a-engin

Tveir dagar í Hlíðarvatni í Selvogi

By | Veiði, Veiðiferðir, Veiðistaðir | One Comment

Er nýkominn úr tveggja daga veiði í Hlíðarvatn. Var að veiða frá 18 á sunnudegi til 16 á þriðjudegi.

Veðrið var þvílíkt fallegt á sunnudeginum þegar ég kom að vatninu, þvílík dýrð, ég hreinlega hélt að þetta gæti ekki staðist, einhver kæmi og ræki mig heim, þetta væru tóm misstök hjá mér.
Eftir að ég hafði komið mér fyrir í bústaðnum fór ég strax þar sem rennur úr vatninu við brúna. Þessi staður hafði gefið mér best þegar ég var þarna síðast um miðjan maí. Ekki fékk ég högg þarna og ekkert líf var að sjá. Ég sá svo seinna þegar ég skoðaði veiðibókina að ekkert hafði veiðst þarna lengi, hugsanlega er þetta bara vorveiðistaður. Ég endaði svo fyrsta kvöldið í Botnavíkinni og varð heldur ekki var.

Daginn eftir var veðrið áfram frábært, ég prófaði alla þessa helstu staði, Hlíðarey, Kaldós, Kaldós sker, Djúpanef og svo Botnavík, ég prófaði núna að veiða hana með hægsökkvandi línu. Einhvern vegin líkar mér aldrei við línur sem sökkva, finnst þær annað hvort of þungar og erfitt að vita hvenær búið er að draga þær nægilega inn til þess að kasta aftur. Eflaust er þetta spurning um þjálfun. Niðurstaðan var sú sama og kvöldið áður, fékk ekki fisk og varð varla var, ekkert líf að sjá.

Vel hefur veiðst í Hlíðarvatni í ár, Ármenn eru búnir að fylla eina veiðibók, á síðustu síðu hennar sá ég að alls voru skráðar 641 bleikja, 8 urriðar og 1 áll. Það var svo búið að skrá nokkrar síður í nýrri bók, hver síða með 25 línum!

Ég var ansi þreyttur eftir daginn og fór snemma í háttinn, ég vaknaði svo við rok og rigningu seinni daginn. Mér leist ekki á veðrið og fékk mér kaffi í rólegheitum og hlustaði á rás eitt. Ég gerði meira að segja nokkrar æfingar með morgunleikfiminni, í fyrsta skipti á æfinni. Sýnir hvað ég var lítið spenntur að fara út að veiða. Æfingarnar voru reyndar nokkuð góðar fyrir bakið á mér sem var frekar aumt eftir gærdaginn.
Ég fór svo beint í Botnavíkina enda voru allar færslur þaðan í veiðibókinni síðustu daga. Ekkert var að hafa í byrjun en par sem var að veiða innst í Botnlanganum fékk tvo fiska, þá færði ég mig nær þeim án þess að vera frekur. Stuttu seinna fór ég að fá tökur, þetta voru mjög nettar tökur, ég var ekki með tökuvara en þar sem ég kastaði beint undan vindi lagðist línan beint út og ég var alltaf í sambandi við hana. Það fór svo að ég náði þarna 5 bleikjum og missti tvær á 3-4 tímum. Ég endaði daginn svo í Hlíðarey án þess að verða var.

Minkur var að fara eftir bakkanum í leit að æti, nokkrar sögur hafa heyrst af sjálfsbjargarviðleitni hans. Ég settist á bakkann og hann kom mjög nálægt mér, svona stangarlengd í burtu. Ég var ekki alveg rór á meðan ég sat þarna, vissi ekki hvort hann væri að reyna að laumast í veiðipokann. Ég hafði rekist á þennan mink þegar ég var að keyra eftir veginum, hann kom lallandi eftir veginum  í áttina að  bílnum, ekki vitund hræddur, auðsjáanlega orðinn vanur manninum.

Góður veiðitúr var að baki sem sýnir að það er ekki veðrið sem stjórnar veiðinni….eða hvað?

 

 

Veiðiferðir og veiðiferðir.

By | Veiðiferðir | 2 Comments

Ég er búinn að fara í nokkrar veiðiferði undanfarnar vikur.
Ég hef bara ekki nennt að skrifa um þær, líklega vegna þess að veiðin hefur ekki verið upp á marga fiska.

Fór í Elliðavatn með öðrum stráknum mínum fyrir nokkrum vikum, við vorum voða duglegir og óðum um Engin fram og til baka án þess að verða varir.
Enduðum svo á því að vaða út að gamla vatninu og þar fékk ég einn fisk.

Fór með gömlum vinnufélaga og syni hans í Framvötn. Ég hlakkaði mjög til því ég hafði ekki farið þarna áður. Ég hafði ekki treyst mér að fara þetta á mínum slyddujeppa, það kom svo í ljós að það er alger vitleysa því þarna var Suzuki Vitara og þá fer minn þetta alveg, kannski spurning um smá kafla upp að Ljótapolli.
Það kom mér á óvart hvað það var mikil umferð þarna, ég sá margar rútur keyra framhjá og marga túrista á jeppum.
Við fórum fyrst í Frostastaðavatn, hjá hrauninu. Þarna fékk ég 13 fiska en sleppti þeim öllum vegna stærðar.
Næst var farið í Ljótapoll, mér hafði verið sagt að nota þar sökklínu, ég tók því með mér sökklínu sem ég hafði keypt í Veiðihorninu (því sú gamla var svo leiðinleg) en mikið var nú leiðinlegt að kasta henni, ég braut svo toppinn á stönginni við löndun á fyrsta fiskinum. Menn eru ekkert að fara upp úr gígnum nema í lok dags en ég neyddist til þess, því auka toppurinn var uppi í bíl. Ég tók með mér aðra stöng með flotlínu sem ég ætlaði að prófa. Það fór svo þannig að ég notaði hana mest, mér finnst að það ætti alveg að duga að vera með intermediate línu þarna eða bara flotlínu, þetta var meira spurning um að kasta nógu langt út en að láta þetta sökkva svo mikið. Þegar upp var staðið var það spúnninn sem gaf mest, 12 fiska, ég var með 4 á fluguna.

Ég fór á “laxaslóðir” í Hólmsá og Elliðavatni með Skugga fyrr í þessari viku. Ekki sá ég lax við brúnna svo ég fór á stað í Hólmsá sem ég veit að geymir oft lax og endaði svo túrinn við Gunnarsholt í Hólmsánni. Þar var fyrir annar veiðimaður, þetta er jú orðinn þekktur staður, hann hafði ekki fengið neitt og eins fór fyrir mér.

Ég fór svo í Elliðavatn í gærkvöldi, frétti af stökkvandi laxi við brúnna og byrjaði því þar, því næst var farið út álinn og kastað í áttina að sefinu. Tvisvar var togað í línuna en ekki náði ég fiski. Veðrið var rosalega fallegt, logn og falleg kvöldsólin, gott fyrir sálina og stundum er það allt sem þarf.

Þar sem við hjónin erum aftur komin á tvo bíla, get ég spilað mína músík hátt á leiðinni og það var það sem ég gerði, núna var það Spotify sem sá um að streyma til mín rokki og róli.

Ég og strákurinn erum leita að einhverri nýjum veiðistað til að prófa, stað með einhverri tegund af laxfiski sem kostar ekki of mikið, 1-2 daga, ef menn geta mælt með einhverju þá er það vel þegið.