Tag: urriði

  • Jónskvísl og Sýrlækur 20-22 júlí

    Jónskvísl og Sýrlækur 20-22 júlí

    Ég og sonur minn keyptum leyfi í Jónskvísl og Sýrlæk seinni hluta júlí mánaðar.
    Það æxlaðist þannig að öll fjölskyldan mætti á staðin, þ.e.a.s. ég og spúsa mín og þrjú barna minna með mökum og börnum.
    Þetta var hin skemmtilegasta ferð þó veiðin hafi ekki verið mikil, fengum tvo staðbundna urriða úr sitt hvorri ánni.
    Sjóbirtingurinn var ekki mættur á svæðið, bændur á staðnum sögðu okkur að þeir vildu ekki að það væri selt í þetta í júlí svo manni fannst maður nú aðeins vera snuðaður, jú fengum stórt veiðihús en það er ekki aðgengilegt nema vera a.m.k. á slyddujeppum. Einnig vantaði veiðibók sem átti að vera við bæinn Fossa.
    Jæja en allavega var þetta skemmtileg ferð í alla staði.
    Næst yngsti veiðimaðurinn fékk stærri fiskinn, 1.1 kíló á spún með aðstoð frænku sinnar reyndar.

    Ég gúgglaði vefinn í tætlur í leit að myndum af veiðihúsi, veiðistöðum og aðstæðum en ekki var mikið að sjá, alltaf sömu myndirnar, til er facebook síða hjá svfk en hún hefur lítið verið uppfærð og myndir af svæðinu á síðunni þeirra virkar ekki.
    Einnig vildi ég vita um aðgengi og t.d. veginn að veiðihúsinu, það eru engar upplýsingar um það, heldur voru veiðistaðir ekki merktir. Þetta skiptir máli fyrir menn sem ekki hafa komið áður á staðinn en við vitum meira núna.

    Af því fjölskyldan var með kom upp umræða sem aldrei myndi koma upp ef eingöngu karlmenn væru í húsinu en það var sem sagt verið að spá í að gardínurnar væru ekki í sama lit og eldhúsinnréttingin, þær voru fjólubláar en innréttingin blá. Ég sé þetta seint vera pælingu hjá veiðikörlunum en gaman af þessum muni á kynjunum.

    Við erum vanari að veiða í stöðuvötnum en rennandi vatni, því var þetta að vissu leyti lærdómsrík ferð, t.d. fékk ég minn fisk í Sýrlæknum í utanverðri beyju, akkúrat eins og maður hefur sérð á myndböndum og lesið um í veiðibókum en þarna fékk maður staðfestingu á því að þessi staður virkar. Þessi fiskur kom á fluguna Krókinn, seinni fiskurinn kom svo í Eyvindarhyl á spún.

    Ég vildi gjarnan vera þarna upp úr miðjum ágúst eða í september þegar það er sjóbirtingur út um allt.

    Set inn slatta af myndum, m.a. myndir af slóðanum að veiðihúsinu.

     

  • Skemmtilegur dagur í Elliðavatni

    Skemmtilegur dagur í Elliðavatni

    Jæja, Elliðavatnið tók heldur betur skemmtilega á móti mér á opnunardaginn í gær

    Ég byrjaði á því að fara út á Engin, þar var þá fyrir maður sem var búinn að spúna megin hluta af grjótinu sýndist mér. Þegar ég hitti á hann sagðist hann ekki hafa orðið var svo ekki leit þetta vel út.
    Ég byrjaði að kasta í ós Bugðu án árangurs, óð svo út í grjótið á Engjunum, ég fékk ekki svo mikið sem högg og ekki var mikið líf að sjá. Ég var með Nobbler í nokkrum litum og einn nýjan í gylltum lit en ekkert gerðist.
    Á endanum fannst mér þetta vera  vonlítið og sneri við. Í þrjósku og af gömlum vana henti ég aftur í Bugðu ós og var svona að ganga og draga inn þegar ég finn fyrir fyrirstöðu.
    Viti menn á endanum var stór urriði sem heldur betur lét finna fyrir sér, hann tók hraustlega í línuna og stökk aftur og aftur, þetta var virkilega skemmtileg viðureign.
    Að lokum náði í honum í pokann, þvílíkur fiskur, hraustlegur útlists sem mældist 4 pund eftir blóðgun þegar komið var í land, hann virkar samt stærri.

    Þetta er líklega stærsti fiskur sem ég hefi fengið í vatninu, allavega hef ég ekki fengið stærri. Það sem gerði þetta svo enn skemmtilegra var að þetta var endurbætt útgáfa af flugunni Rósamunda sem ég hef sýnt hér áður á síðunni.
    Sú fluga er straumfluga með grænum, rauðum og svörtum hárum, ég skipti út efstu hárunum sem eru svört og sett píkokk fjaðrir í staðinn og hafði þær langar, lengri en hinra.
    Þetta virðist vera í tísku í laxaflugum þessa dagana, ég bætti svo aðeins við gylltu skrautþræðina. Þessa flugu kalla ég Rósamundu í sparifötunum.
    Hún var reyndar með appelsínugulri keilu í þeirri útgáfu sem ég veiddi á núna.

    Það var sem sagt tvöföld ánægja í þessari veiðiferð.

    Ég prófaði einnig að veiða sunnan við Elliðavatnsbæinn með púpum en varð ekki var.

    Ekki voru margir veiðimenn miðað við að þetta væri opnunardagur en samt slæðingur.

     

    Og hérna var fiskurinn blessaður

  • Elliðavatn, Bugðuós og engin

    Fór í Elliðavatn í blíðunni í gær. Ég var viss um að vatnið væri nú komið almennilega í gang eftir hlýindin undanfarið. En nei, ekki var það nú.
    Þetta leit svo sem vel út, tók einn í ósnum í Bugðu á leiðinni út á engin en svo gerðist ekkert í marga klukkutíma.

    Ég hitti mann úti á engjunum, hann hafði verið að kasta á grjóthrúgurnar með nobbler en ekki orðið var. Ég ákvað samt að prófa sjálfur og nota fleiri tegundir af flugum en allt kom fyrir ekki, enginn fiskur. Ég óð þá út að gamla vatninu í þeirri von að ég fengi fisk þar eins og síðast þegar grjóthrúgurnar gáfu ekki en það var sama sagan þar.

    Sem síðustu tilraun prófaði ég þá að vaða engin í NV, í áttina að stíflunni. Þar fékk ég loksins einn fisk á nobbler.

    Ekki voru þeir nú stórir fiskarnir sem ég fékk, voru rétt rúmlega pund, minnsta meðalþyngd sem ég hef verið með þarna lengi.

    Sefið norðan við Elliðavatnsbæinn var að byrja koma upp úr vatninu en það var allavega fet niður á sefið úti í vatninu sjálfu, kannski fer þetta almennilega í gang þegar það kemur upp, hugsanlega með fleiri púpum í kjölfarið. Það er vonandi og sefið er líka mitt viðmið þegar ég veð engin.

    Jæja, ætli það sé ekki að fara koma tími á Úlfljótsvatnið, það hlýtur að fara að hrökkva í gang í kjölfarið á hlýjundunum undanfarið.

  • Elliðavatn af bakkanum

    Elliðavatn af bakkanum

    Það blés hressilega af suðri þegar ég fór í Elliðavatn í gær.
    Ekki leist mér á að fara út á engin, sérstaklega þar sem hugmyndin var að enda á því að kasta í gamla vatnið en þá hefði vindurinn verið beint á móti og það hvass að erfitt hefði verið að koma línunni út, að maður tali nú ekki um vindhnútana og flækjurnar.

    Ég fékk einn í grjótinu út af Myllulæk. Flugan sem gaf var eitthvað sem ég henti upp í bríaríi þegar ég var að prófa nýtt hnýtingarefni. Hún sést á yfirlitsmyndinni, þar sem er tengill á þessa grein.
    Hún er hvítt skott úr marabúa, hvítt “Minnow Body Wrap” vafið um búkinn, það klyppt til í útlínur fisks, allt saman litað með svörtum túss að ofan og gulum að neðan. Kannski maður útfæri hana eitthvað nánar í framtíðinni.

    Það voru nokkrir við vatnið að veiða, ég hitti veiðimann sem þekkir hefur veitt í vatninu í áraraðir og fær oftast góðan afla, hann hafði misst einn, það var allt og sumt, þó sá ég á vefnum að allavega einn veiðimaður hafði fengið flottan urriða í Helluvatni.

    Það sést á einni myndinni hér fyrir neðan að sefið er að byrja að koma upp úr vatninu, þá gleðst ég, viðmiðin mín á engjunum eru þar.

     

  • Þrjóskan borgaði sig

    Þrjóskan borgaði sig

    Ég fór í Elliðavatn í gær með nýja útgáfu af Nobbler,  hugmynd sem ég fékk þegar ég var að veiða þarna síðast, þá voru sýli í maga tveggja urriða. Hugmyndin var sú að hnýta gráan Nobbler og hanafjöðurs vöfin um búkinn myndu líkja eftir þverrákunum á sílunum, svo sem ekki nein bylting og margir prófað þetta eflaust en maður er alltaf spenntur að prófa nýjar flugur.
    Ég fór út á engin og prófaði sömu staði og ég hafði farið á síðast, fékk reyndar tvö högg en engan fisk. Krókurin á annari flugunni hafði reyndar verið beygður niður af því hún var hætt að bíta og ég vildi ekki fleygja henni í vatnið og lét hana því í veiðiboxið aftur. Þegar ég skipti henni svo út sá ég hvernig í pottinn var búið og gat ekki annað en hlegið að vitleysunni í sjálfum mér að hafa ekki séð þetta þegar ég hnýtti fluguna á tauminn, flugan sést hér fyrir neðan.

    2016-05-07 18_Fotor

    Alltaf er maður að læra, ég hnýtti nýju fluguna á krók númer 8 og var með of þung augu, þar með var ekki skemmtilegt að kasta henni með sexunni, maður ætti svo sem að muna að það er best að nota krók númer 10.

    Ég var samt ánægður með daginn, hafði orðið var við fisk en í þrjósku minni óð ég út að gamla vatninu og skipti yfir í Píkokk á dropper og Krókinn á enda. Viti menn ég fékk fisk, bjartan og fallegan urriða um tvö pund, hann var sterkur og tók vel í, þetta var skemmtileg barátta. Ég fékk svo þrjá til viðbótar þarna í vatninu, alla á Krókinn, það óvenjulega við þá var að aðeins einn þeirra var með þennan venulega gula lit, hinir voru allir silfraðir á litinn.

    Ég var við veiðar frá 13 til 19, þar af um fimm tíma vaðandi í vatninu, það er fín líkamsrækt og með því lengsta sem ég hef verðið úti í vatninu í einu.
    Það var sáttur veiðimaður sem fór heim um kvöldmatarleitið, svolítið aumur í bakinu en annars góður.

    2016-05-07 18.36.26

     

  • Frábær afmælisdagur í Elliðavatni

    Frábær afmælisdagur í Elliðavatni

    Þá er maður búinn að fara í fyrstu veiðiferðina á þessu ári!

    Það vill svo skemmtilega til að ég á afmæli í dag, sumardaginn fyrsta og það er akkúrat dagurinn sem Elliðavatnið opnar. Ég skellti mér því í veiði og var mættur á stæðið sem menn nota þegar þeir fara út á engjarnar um eitt leitið.
    Ég hef keypt veiðikortið í mörg ár og þetta ár er engin undantekning, ég uppgötvaði að ég hafði gleymt veskinu mínu heima ásamt veiðikortinu. Ég tók sénsinn, það hefur ekki sést veiðivörður við vatnið í mörg ár. Þegar ég var svo að gera mig kláran rennir upp að mér vinalegur náungi og ég spyr hann um veiðina en hann hafði ekki frétt neitt af morgunveiðinni, hann segir svo “Ég sé að þú ert með límmiðann frá veiðikortinu á bílnum svo ég þarf ekki að spyrja þig um kortið”. Þarna slapp ég við skrekkinn. Ég held svo áfram að græja mig, kemur þá veiðimaður af engjunum, hann sagði að þetta væri dauft, hann hefi misst einn og ekki fengið neitt. Í þessu kemur svo veiðivörðurinn og segir að það hafi lítið veiðst um morguninn. Ekki góðar fréttir en ekki stoppar það mann.

    Ég byrjaði neðst í ánni án þess að verða var og fór svo á gamalkunna staði á engjunum. Ekkert gerðist til að byrja með en svo fékk ég högg, jæja þetta er ekki alveg dautt hugsaði ég með mér og veiddi áfram. Þá setti ég í fisk en hann var ekki lengi á, ég var með hjól sem ég hafði ekki notað í tvö ár og ég hafði ekki skipt um taumefni og það slitnaði eins og tvinni. Eins og ég hef nú lesið margar greinar um að taka á taumefninu og yfirfara búnaðinn.

    Ég skipti yfir í nýtt 8 punda taumefni og setti undirsvartan og grænan UV Nobbler. Áfram veiddi ég en varð ekki meira var, ég þóttist vita að morgunvaktin hafi tekið engið nokkuð vel og af fréttum að dæma var ekki mikil veiði. Ég ákvað því að breyta um kúrs og fór norðar á engin, þar er allt svæðið grunnt ætti því að vera fyrr að hlýna. Nú breyttist dæmið heldur betur, ég setti strax í fisk og var svo reglulega að fá fisk. Ég sikksakkaði yfir á bakkann austan megin. Þegar ég var kominn alveg yfir að bakkanum hinu megin festi ég fluguna á steini og losaði með því að toga í hana. Bugurinn bognaði upp og bitið var farið úr oddinum, ég gaf henni samt séns, rétti buginn og brýndi oddinn, hann var þó ekki sérstaklega beittur. Nú var mér refsað fyrir að huga ekki betur að búnaðinum, ég setti nefnilega í stærsta fiskinn og hann var alveg snarbrjálaður, hoppaði , skoppaði og synti á sporðinum, alveg óstöðvandi þar til flugan losnaði úr!

    Nú var ég búinn að gera tvenn mistök við útbúnaðinn og var refsað fyrir þau bæði. Maður lærir bara af þessu.

    Dagurinn endaði með fjórum urriðum frá rúmi pundi upp í rúm tvö pund og tvo sem  ég  missti. Veðrið var mjög gott og miklu betra en spáin hafði sagt til um. Ég get ekki annað en verið ánægður með þessa afmælisgjöf frá vatninu og þennan frábæra dag.

     

  • Urriðadansinn 2015

    URRIÐADANS Í ÖXARÁ

    Hinn árlegi Urriðadans í Öxará verður laugardaginn næstkomandi 17. október en þá mun Jóhannes Sturlaugsson hjá rannsóknafyrirtækinu Laxfiskum fræða gesti Þjóðgarðsins á Þingvöllum um Þingvallaurriðann.

    Kynningin hefst klukkan  kl. 14.00 og fer fram á bökkum Öxarár.
    Gönguferðin hefst við bílastæðið þar sem Valhöll stóð. Síðan er gengið með ánni upp undir Drekkingarhyl þar sem risaurriðar og aðrir minni verða skoðaðir og fjallað um lífshætti þeirra.

    Gert er ráð fyrir því að kynningin taki um eina og hálfa klukkustund og fá gestir tækifæri til að sjá risaurriðann í návígi og fræðast um þennan stórhöfðingja Þingvallavatns sem á hverju hausti gengur upp Öxará til hrygningar.

    http://thingvellir.is/2243

     

    Ég mæli eindregið með þessu, fyrir allan aldur.

  • Elló tók vel á móti mér í dag

    Fór í fyrstu veiðiferð sumarsins, fór í Elliðavatn, hvað annað.

    Það var frekar svalti í veðri, sérstaklega þegar hann fór að blása en það gerði hann við og við yfir daginn. Hitinn var held ég um 2-3 stig og vindurinn frá svona 2 m/s yfir í 6 m/s, sól minnir mig allan tíman. Það var mikið vatn í ánni og vatninu, þar með gat ég ekki notað sefið sem kennileiti og vissi ekki almennilega hvort ég var nálægt veiðistöðum sem ég þekkti.

    Ég var mættur á staðinn upp úr 13 og veiddi til 18, þar af um þrjá tíma á Engjunum. Ég sá strax vöku rétt hjá Bugðuós og sá fisk synda rólega á grynningunum austan við ósinn en ekki tók hann. Ég fór svo út á Engin, eftir nokkra stund var ég farinn að halda að fiskurinn væri í æti nær landi en ekki úti á Engjunum en svo tók hann. Ég fékk þrjá urriða, alla um tvö pund, einn á svartan og grænan Nobbler, annan á rauðan Nobbler og þann þriðja á nýju fluguna mína Rósamundu sem var mjög skemmtilegt. Allar þessar flugur má sjá hér á blogginu.
    Ekki hækkaði það hitastigið hjá mér við það að detta kylliflatur, ekki á miklu dýpi þó, bar fyrir mig hendurnar og fann vatnið seytla vinalega inn í vöðlujakka og vöðlur, yndislegt.

    Ég kastaði svo aðeins í álnum, þar fékk ég eitt högg á svarta púpu (sem er á reynslutíma), tók svo að lokum nokkur köst í Helluvatni en varð ekki var þó hann væri að taka flugur 10 metrum utan kastfæris (af hverju er það svo oft þannig, er hann bara að stríða manni?).

    Það var slæðingur af veiðimönnum við vatnið, dreiðir um allt vatn, 2 á Engjunum, 2 í Bugðuós, 2 við Elliðavatnsbæinn, 2 við brúnna, 3 í Helluvatni, ég kíkti ekki hvort einhverjir væru að veiða ströndina vestan við bæinn eða á Riðhól.

    Frábær dagur að baki í Elló og bakið á örugglega eftir að skána.

     

  • Leikið með úlfinn

    Leikið með úlfinn

    Lék mér að hárunum í úlfinum (Nayat) og hermdi eftir flugum sem t.d. Ulf Hagström (sjá vídeó með honum hér í blogginu) hefur verið að gera fyrir geddu, stórar og miklar flugur.

    Ég ætla að sjálfsögðu að prófa þessar flugur í eitthvað, örugglega í urriðann, kannski í lax ef ég kræki í einhverja ódýra laxveiði á árinu (já, já, það er allt í lagi að láta sig dreyma).

    20150329_113406_Fotor3

     

    20150329_113207_Fotor_Fotor3

     

     

     

  • Urriðagangan á Þingvöllum 2014

    Urriðagangan á Þingvöllum 2014

    Urriðadansinn á Þingvöllum 2014.

    Þetta var fjölmennasta gangan hingað til 347 þáttakendur hærri en 150 sentimetrar, tæplega 100 fleiri en í síðasta meti.

    Veðrið frábært, fróðleikurinn góður og skemmtilegur, góður dagur á Þingvöllum.

  • Hólmsá

    Skellti mér við einn hund í Hólmsána í gær, gekk á með vindhviðum en annars fallegt veður.

    Byrjaði í beygjunni fyrir neðan síðustu brúna á hringveginum yfir ána. Skemmst frá að segja setti ég í tveggja punda urriða í öðru kasti á rauðan Frances, ég missti hann eftir skamma viðureign, hann tók nokkur stökk og hvarf. Ég bölvaði sjálfum mér fyrir að hafa ekki fest hann með því að reisa stöngina snöggt, ákvað með sjálfum mér að muna það nú örugglega næst.

    Færði mig aðeins niður ána og setti í putta sem var sleppt.
    Ég fékk félagsskap, þrír fullorðnir og eitt barn með tvær kaststangir. Þau fóru niður fyrir þann stað sem ég var að veiða á, ég veit ekki hvort þau fengu fisk eða ekki, heyrði einhver “læti” (eða háreysti eins og þeir segja í sundlaugunum) en sá þau ekki fara til baka með neinn fisk.

    Jæja ég fetaði mig til baka og þegar ég kastaði á sama stað og ég hafði fengið tveggja pundarann, fékk ég samskonar fisk aftur og nú á svartan og grænan UV Nobbler, hann stökk eins og óður væri, fleytti næstum kerlingar á yfirborðinu. Það fór á sama veg og áður, ég reisti ekki stöngina því ég hélt hann væri fastur og hann losnaði eftir 6-7 stökk. Jæja, svona er þetta bara. Mig grunar að þetta hafi verið sami fiskurinn í bæði skiptin.

    Fór upp fyrir brú og veiddi mig upp að rauðum og hvítum mæliskúr sem er við bakkann, fór ekki langt því það var farið að skyggja. Eftir nokkur hundruð metra og slatta af köstum settist ég niður og fékk mér nesti, ég hafði nú bara keypt mér rúnnstykki í Olís á leiðinni uppeftir svo ekki var mikið til skiptannna á milli mín og hundsins, nestispásurnar eru hápunktur ferðarinnar hjá hundinum, ég vona að hann fyrirgefi mér skortinn. Einn putti fékkst á þessum kafla.

    Nú er það spurningin hvort þetta sé síðasta ferð sumarsins, ekki fór ég í Alviðru eins og ég hef gert undanfarin tvö ár, ekki hefur verið farið í þá ferð vegna aflabragðanna og ekki eru nú líkurnar betri í ár, ætli ég sleppi því bara ekki, enda er þetta full hátt verð fyrir sumarbústað.
    Það er þó enn spurning hvort ég skjótist í Hlíðarvatn, er þar staður sem ég þarf að prófa betur, hugsanlega skýst maður einn dag án þess að gista, kannski ekki.

  • Elliðavatn í opnun sumardaginn fyrsta

    Fékk tvo urriða, annan á nýjan chartrös UV Nobbler, hann fékkst í ósi Bugðu.

    image

    image

    image

    image

    image

    image

    image