Skemmtilegur dagur í Elliðavatni

Jæja, Elliðavatnið tók heldur betur skemmtilega á móti mér á opnunardaginn í gær

Ég byrjaði á því að fara út á Engin, þar var þá fyrir maður sem var búinn að spúna megin hluta af grjótinu sýndist mér. Þegar ég hitti á hann sagðist hann ekki hafa orðið var svo ekki leit þetta vel út.
Ég byrjaði að kasta í ós Bugðu án árangurs, óð svo út í grjótið á Engjunum, ég fékk ekki svo mikið sem högg og ekki var mikið líf að sjá. Ég var með Nobbler í nokkrum litum og einn nýjan í gylltum lit en ekkert gerðist.
Á endanum fannst mér þetta vera  vonlítið og sneri við. Í þrjósku og af gömlum vana henti ég aftur í Bugðu ós og var svona að ganga og draga inn þegar ég finn fyrir fyrirstöðu.
Viti menn á endanum var stór urriði sem heldur betur lét finna fyrir sér, hann tók hraustlega í línuna og stökk aftur og aftur, þetta var virkilega skemmtileg viðureign.
Að lokum náði í honum í pokann, þvílíkur fiskur, hraustlegur útlists sem mældist 4 pund eftir blóðgun þegar komið var í land, hann virkar samt stærri.

Þetta er líklega stærsti fiskur sem ég hefi fengið í vatninu, allavega hef ég ekki fengið stærri. Það sem gerði þetta svo enn skemmtilegra var að þetta var endurbætt útgáfa af flugunni Rósamunda sem ég hef sýnt hér áður á síðunni.
Sú fluga er straumfluga með grænum, rauðum og svörtum hárum, ég skipti út efstu hárunum sem eru svört og sett píkokk fjaðrir í staðinn og hafði þær langar, lengri en hinra.
Þetta virðist vera í tísku í laxaflugum þessa dagana, ég bætti svo aðeins við gylltu skrautþræðina. Þessa flugu kalla ég Rósamundu í sparifötunum.
Hún var reyndar með appelsínugulri keilu í þeirri útgáfu sem ég veiddi á núna.

Það var sem sagt tvöföld ánægja í þessari veiðiferð.

Ég prófaði einnig að veiða sunnan við Elliðavatnsbæinn með púpum en varð ekki var.

Ekki voru margir veiðimenn miðað við að þetta væri opnunardagur en samt slæðingur.

 

Og hérna var fiskurinn blessaður

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.