Elló tók vel á móti mér í dag

Fór í fyrstu veiðiferð sumarsins, fór í Elliðavatn, hvað annað.

Það var frekar svalti í veðri, sérstaklega þegar hann fór að blása en það gerði hann við og við yfir daginn. Hitinn var held ég um 2-3 stig og vindurinn frá svona 2 m/s yfir í 6 m/s, sól minnir mig allan tíman. Það var mikið vatn í ánni og vatninu, þar með gat ég ekki notað sefið sem kennileiti og vissi ekki almennilega hvort ég var nálægt veiðistöðum sem ég þekkti.

Ég var mættur á staðinn upp úr 13 og veiddi til 18, þar af um þrjá tíma á Engjunum. Ég sá strax vöku rétt hjá Bugðuós og sá fisk synda rólega á grynningunum austan við ósinn en ekki tók hann. Ég fór svo út á Engin, eftir nokkra stund var ég farinn að halda að fiskurinn væri í æti nær landi en ekki úti á Engjunum en svo tók hann. Ég fékk þrjá urriða, alla um tvö pund, einn á svartan og grænan Nobbler, annan á rauðan Nobbler og þann þriðja á nýju fluguna mína Rósamundu sem var mjög skemmtilegt. Allar þessar flugur má sjá hér á blogginu.
Ekki hækkaði það hitastigið hjá mér við það að detta kylliflatur, ekki á miklu dýpi þó, bar fyrir mig hendurnar og fann vatnið seytla vinalega inn í vöðlujakka og vöðlur, yndislegt.

Ég kastaði svo aðeins í álnum, þar fékk ég eitt högg á svarta púpu (sem er á reynslutíma), tók svo að lokum nokkur köst í Helluvatni en varð ekki var þó hann væri að taka flugur 10 metrum utan kastfæris (af hverju er það svo oft þannig, er hann bara að stríða manni?).

Það var slæðingur af veiðimönnum við vatnið, dreiðir um allt vatn, 2 á Engjunum, 2 í Bugðuós, 2 við Elliðavatnsbæinn, 2 við brúnna, 3 í Helluvatni, ég kíkti ekki hvort einhverjir væru að veiða ströndina vestan við bæinn eða á Riðhól.

Frábær dagur að baki í Elló og bakið á örugglega eftir að skána.

 

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.