Category Archives: Veiðiferðir

Hlíðarvatn í Selvogi

By | Veiðiferðir | No Comments

Fór í Hlíðarvatn í Selvogi síðasta sunnudag,  það var frítt í vatnið þennan dag.

Veðrið mjög gott miðað við árstíma og verðurspá, minni vindur en spáin gaf til kynna.
Það var slatti af fólki við veiðar, fleiri en síðasta ár var mér sagt í Hlíð, bústað Hafnfirðinga, veiðin var líka alveg þokkaleg, menn voru að reita upp fisk og fisk.
Á mölinni var nokkur fjöldi fólks, um 15 manns eða svo.

Ég tók með mér mann sem ekki hafði veitt á stöng í allavega 15 ár og aldrei fengið fisk á flugu, hann var með kaststöng og reyndi fyrst spúninn án árangurs.
Hann var með nokkrar flugur með sér sem reyndust allt vera laxaflugur, þær geta auðvitað gefið bleikju en ég gaf honum nokkrar flugur frá mér, Píkokk, Krókinn og Pheasant Tail.
Hann græjaði þetta á flotholt og hafði 3ja metra langan taum, Það var svo í Hjalltanganum sem hann fékk pundara á Krókinn 🙂
“Reddaði deginum” sagði hann og brosti, “borð’ana í kvöld”.
Þetta fannst mér nú eiginlega skemmtilegast við ferðina!

Hann fór nokkuð fyrr en ég og ég fór yfir í Botnavík, þar voru 15-20 manns að veiða, ég kom mér fyrir á  austur bakkanum, inni í lítilli vík,  því tangarnir voru allir uppteknir.
Ég fékk strax nart í fyrsta kasti og allan tíman sem ég veiddi þarna fann ég að það var stöðugt verið að rjátla við fluguna, það fór svo að ég fékk 6 fiska þarna, því miður gat ég bara hirt 2 vegna stærðar. Þetta var samt virkilega gaman, fiskur er jú fiskur, ég hafði fengið einn undirmálsfisk í Hjalltanga og annan eins í Kaldósnum, ég fékk því 8 fiska í ferðinni.

Skemmtilegri ferð í Hlíðarvatni lokið, gott veður og skemmtilegt fólk.

Veiðigyðja, veiðigyðja, hvar ert þú.

By | Veiðiferðir | No Comments

Búinn að fara tvisvar að veiða án þess að skrifa um það enda kannski ekki mikið að segja frá þegar ekkert veiðist og ekki skemmtilegt að blogga svoleiðis ferðir.

Fór sem sagt í Elliðavatn um daginn, þ.e.a.s. ætlaði að fara í Elliðavatn. Áður en ég lagði af stað fór ég yfir hvað ég þyrfti að taka með mér og týndi það allt samviskusamlega til og lét í bílinn. Ég mundi svo að reimarnar voru orðnar lélegar í vöðluskónum og renndi því við í Sportbúðinni á leiðinni og keypti mér reimar. Allt að ganga upp. Ég keyri svo upp að Elliðavatni, á í vandræðum með að finna bílastæði svo ég legg vestan megin við brúna, það var einhver hjólakeppni í gangi og öll stæði full. Ég tek mig svo til í rólegheitum, ullarsokkarnir, vöðlurnar, vestið, háfurinn og netið en hvar eru vöðluskórnir?
Nú hefði komið sér vel að frumburðurinn væri búinn að semja “Undirbúningssöng veiðimannsins” sem ég hef reyndar nokkrum sinnum minnt hann á en þetta kemur allt að lokum, er það ekki Sindri?
Ég hafði sem sagt gleymt skónum, jæja, breyti planinu og ákeð að renna stutta stund í ánna og segja þetta svo gott. Það var svo eins og lang oftast í ánni, sá þá skjótast nokkra en fékk ekki fisk, kannski 1-2 nört en það var allt og sumt.

Fyrir 2 vikum eða svo fór ég svo í Úlfljótsvatn, ég var fullur tilhlökkunar, var með frumburði og tengdasyni og bjóst við slatta af fiski því vatnið á að vera komið í gang.
Við byrjuðum sunnarlega í vatninu á stað sem gaf okkur vel í fyrra, þar voru fyrir þrír veiðimenn með 6-7 fiska sem þeir voru búnir að reita upp á 3 tímum. Leit vel út. Það fór þó svo við urðum ekki við varir, veiðimennirnir sem voru þarna fyrir fengu 1 fisk á þeim tíma sem við vorum þarna. Við ákáðum því að fara í Borgarvíkina, þar ætti að vera öruggt að fá fisk á þessum tíma, sonurinn fékk tvo titti sem fengu líf en við hinir ekki neitt.
Þarna voru fyrir tveir aðrir veiðimenn, annar þeirra veiddi reglulega fisk og ég sá hinn taka einn. Hvað er að gerast, er veiðigyðjan að yfirgefa mann, það verður bara að koma í ljós.
Maður hefur verið veikur undanfarið, það ásamt öðrum brýnum erindum hefur haldið mig frá veiðum, vonandi fer það nú allt saman að klárast.

Vonandi get ég skroppið bráðlega í Elliðavatn.

Annars var ég að glugga í bókina um Vatnsdalsána í dag, það rifjuðust upp góðir tímar á silungasvæðinu, mikið rosalega langar mig nú að fara þangað aftur.

Elló 1. júní

By | Veiðiferðir | No Comments

Hvernig er þetta með veðurspána, getur hún aldrei staðist!

Fór í Elliðavatn í dag af því veðurspáin hafði sagt að í dag yrði skásti dagurinn, 11 stiga hiti og vindur 4-5 m/s. Það klikkað heldur betur. Ég var svo sem ekki með hitamæli á mér að það blés ansi hressilega á köflum og það var frekar kalt þegar sólin hvarf. Geta veðurfræðingar ekki áttað sig á því að það er kominn tími á sumarveðrið!

Jæja, óð út í við Bugðuós, krían var þarna út um allt í æti en ekki fékk ég neinn fisk þó ég kastað á sömu staði og hún var að athafna sig á. Ég beygði svo snarlega til hægri í áttina að stíflunni, veiddi mig inn eftir og beygði svo til vinsti út í vatnið til móts við Krínunes. Þarna var ég svo að plokka upp einn og einn fisk, plokkfiskur eins og sumir segja, á þessu svæði fékk ég þrjá fiska og missti tvo. Vatnið þarna var nokkuð heitt. Ég tók svo einn nær mínum venjulegu miðum á engjunum. Einhverra hluta vegna fékk ég engan fisk á mínum venjulegu veiðistöðum þarna á engjunum, reyndar er svo hátt í vatninu að sefið sést ekki og þar mín venjulegu viðmið og ég fór því ekki á alla staðina þess vegna. Eða kannski datt þetta bara niður um þrjúleitið, akkúrat þegar ég var kominn þarna. Rauður og grænn útfjólublár nobbler gaf þessa fiska.

Ég prófaði aðeins við Elliðvatnsbæinn en varð ekki var, ég reyndi líka á ströndinni vestan við bæinn en varð heldur ekkert var þar.

Að lokum tók ég nokkur köst rétt fyrir kl. 19 við brúnna, ekki varð ég heldur var þar en þá voru komnir þarna fimm aðrir veiðimenn, þegar ég var svo að taka saman fékk einn þeirra að því er virtist stóran fisk, heyrði hann svara því til að flugan væri eitthvað hvítt og rautt.

 

Hólmsá

By | Veiðiferðir | No Comments

Skellti mér við einn hund í Hólmsána í gær, gekk á með vindhviðum en annars fallegt veður.

Byrjaði í beygjunni fyrir neðan síðustu brúna á hringveginum yfir ána. Skemmst frá að segja setti ég í tveggja punda urriða í öðru kasti á rauðan Frances, ég missti hann eftir skamma viðureign, hann tók nokkur stökk og hvarf.

Read More

Elliðavatn í blíðunni

By | Veiðiferðir | No Comments

Skellti mér í Elliðavatn í gær.

Rigning framan af og smá gola en hætti að rigna seinni partinn og sólin lét jafnvel sjá sig við og við.
Ég fór að veiða um 12 leitið, sá einn veiðimann veiðandi álinn sunnan megin frá. Þeim átti eftir að fjölga töluvert þegar leið á daginn. Ekki sá ég neinn vera með fisk en það þarf ekki að segja neitt.
Ég ákvað að fara út á Engin, strax þegar ég kom að Bugðuós var urriði að stökkva, hann stökk tvisvar svo ég sæi til. Ræfillinn tók í fyrsta kasti frá mér, allavega tveggja pundari, sá stærsti sem ég fékk í þessari ferð. Hrygna stútfull af hrognum.
Oft hefur mér dottið í hug að það sé slæm hugmynd að henda hrognunum, danirnir éta þetta og finnst gott skilst mér. Prófaði eitt sinn að léttsalta þetta eftir einhverri uppskrift sem ég fékk. Ekki fannst mér það nú neitt sérstakt.
Fer út á engin, á enn einu sinni í erfiðleikum með að finna grjóthrúgurnar, þessar stóru, það skiptir mestu máli fara rétta leið í byrjun finnst mér, ekki fara út af slóðinni sem ég þekki en það var akkúrat það sem ég gerði. Ekki fékk ég neinn fisk í nágrenni hrúganna.
Næsta fisk fékk ég nálægt sefinu úti í vatninu, einn fékk ég alveg upp við sefið, hann stökk og tók nobblerinn af græðgi þegar ég kastaði á hann. Annar, stærri stökk upp við sefið, ég kastaði á hann, hann tók en lak mjög fljótt af.
Það voru urriðar stökkvandi úti um allt vatn, ég kastaði á fullt af stöðum sem þeir höfðu stökkið á en fékk ekki, fyrir utan þessa þrjá.
Alla fiskana fékk ég líklega fyrir klukkan fjögur, eitt, tvö högg kannski eftir það.

Það var orðið svo langt síðan ég hafði farið að veiða að ég kunni mér ekki hóf, veiddi frá 12 til 19, 80% af tímanum kastandi straumflugu á fullu, það er uppskrift að bakverk á mínum bæ, enda fór það svo að ég átti í erfiðleikum með að fara úr vöðlunum fyrir bakverk, kvartandi og kveinandi eins og eymingi, man næst hvernig mér leið og reyni að stytta dvölina úti á Engjunum. Gallinn við þau er að maður getur ekki sest niður og hvílt sig, þegar ofan á það bætist að vera sífellt að kasta straumflugunni og svo jafnvel að ganga og draga inn um leið, skakkur…það klárar bakið sérstaklega hratt!

Þegar leið á daginn bættust við fleiri veiðimenn, einn var komin á Engin með spún. Eins og ég sagði áðan sá ég engan þeirra vera með fisk.

Get ekki endað þetta án þess að segja frá því þegar ég óð inn álinn frá Engjunum, setti undir Pheasant Tail og kastaði í áttina að sefinu, þá sá ég nokkuð sem ég hef ekki séð þarna fyrr, urriða alveg upp við sefið, uggi og efri hluti sporðsins upp úr. Ég kastaði rólega að honum en ekki vildi hann taka, það voru a.m.k. tveir urriðar í sömu erindagjörðum þarna. Þessi sýn verður mér lengi í huga.

Hér koma nokkrar myndir teknar í byrjun veiðiferðar, gefa vonandi hugmynd um fegurðina þarna á þessum tíma

Úlfljótsvatn um helgina

By | Veiðiferðir | No Comments

Fór í Úlfljótsvatn á sunnudaginn.
Hafði heyrt af tveimur aflaklóm sem fóru þangað seinni partinn á fimmtdaginn og tóku samtals 60 fiska á 5 klukkutímum. Ég vissi ekki hvar þeir hefðu verið í vatninu, né á hvaða flugu(r) þeir fengu fiskinn.

Minn ætlaði að gera svipaða hluti, dreif hund og græjur út í bíl, var mættur á bakkann um sjöleitið. Fékk eitt högg.
Skipti um stað, fór í Borgarvíkina, særði upp eitt pund og fékk annað högg.
Þegar ég fór heim um 10 leitið, þegar það var farið að skyggja voru vökur á fullu en.

Jæja, svona er veiðin, gengur örugglega betur næst 🙂

 

Hlíðarvatn í Selvogi

By | Veiðiferðir | No Comments

Ég og eldri strákurinn minn fórum í skemmtilega ferð í Hlíðarvatn 4-5 ágúst.

Veðrið var hvassara fyrri daginn en lægði svo og snerist daginn eftir. Það var skýjað en rigndi ekki. Þá var vindurinn 2-3 m/s niður í logn.

Það var fullt af flugu á vatninu, mjög litlar flugur sem ég veit ekki hvað heita, ekki þó mýflugur held ég, svo sá ég vorflugu og loks hrossaflugu “skoppa” skemmtilega eftir yfirborði vatnsins (spurning um að prófa Daddy Longlegs eins og bretarnir?)

Þó að þetta hafi ekki verið mok er þetta skársta ferð mín í Hlíðarvatn í nokkur ár.

Read More

Tvær ferðir í Elliðavatn

By | Veiðiferðir | No Comments

Fór í Elliðavatn í síðustu viku og núllaði. Ekki gaman að blogga um svoleiðis svo ég kom mér ekki að því.

Jæja fór í Elliðavatn í dag. Prófaði nýjan stað Kópavogsmegin sem maður hafði bent mér á sem ég var að spjalla við, akkúrat í síðustu ferð sem gaf ekki neitt. Setti strax í undirmálsfisk í öðru kasti og svo kom högg frá öðrum svipuðum stuttu seinna. Svo var það búið.

Read More

Tveir fyrir einn, pennaleti og aflaleysi

By | Veiðiferðir, Veiðistaðir | No Comments

Jæja, fór í Meðalfellsvatn fyrir nokkrum dögum.

Skemmst frá því að segja að eitt smá kvikyndi fékkst og það á rauðan Nobbler í lokin, Flott veður og alles, eina sem vantaði var fiskurinn.

Fór í Úlfljótsvatn við annan mann og hund í fyrradag, það virðist vera liðið hjá að maður fái góðan afla þarna, 4 fiskar, tveir hirtir. Afbrigiði af Gullkróknum með orange kúluhaus var að gefa þetta.

Read More