Tvær ferðir í Elliðavatn

Fór í Elliðavatn í síðustu viku og núllaði. Ekki gaman að blogga um svoleiðis svo ég kom mér ekki að því, samt ætla ég mér að blogga um allar ferðir til að gefa rétta mynd af veiðiskapnum, maður fær jú ekki alltaf fisk.

 

Jæja fór í Elliðavatn í dag. Prófaði nýjan stað Kópavogsmegin sem maður hafði bent mér á sem ég var að spjalla við, akkúrat í síðustu ferð sem gaf ekki neitt. Setti strax í undirmálsfisk í öðru kasti og svo kom högg frá öðrum svipuðum stuttu seinna. Svo var það búið.

Maðurinn sagðist alltaf fá fína urriða þarna, væri með maðk og lengdin á girninu frá floti að króki svona þrjú fet. Gaman að prófa nýjan stað, þarna var par með kaststangir svo þetta var svo sem ekki neinn leynistaður þó ég hefði ekki vitað af honum áður, ekki sá ég neinn setja í fisk. Maður prófar þetta aftur seinna.

Týndi upp stóran vöndul af girni sem augsjáanlega hafði verið losað af kasthjóli…vita menn ekki að þetta er að drepa fugla ef þeir flækjast í þessu!

Ég manaði mig í að fara út í álinn og svo út á Engin, þetta er alltaf langur gangur og þreytandi svo maður nennir ekki alltaf að fara. Þegar ég fer þarna reyni ég bæði við urrann við sefið ef það er komið upp úr vatninu og svo grjóthrúgurnar, stundum fæ ég fiska á báðum stöðum.

Nú brá svo við að ég fékk þrjá fína urriða, allir af sömu stærð, tæp tvö pund hver og þeir fengust allir við sefið. Ég átti reyndar í erfiðleikum með að finna grjóthrúgurnar fyrir öldugangi en ég fann samt nokkrar. Það var ansi hvasst á köflum og minnist ég þess að áður hafi gengið vel að fá urriða þarna í hvassviðri. Man sérstaklega eftir því þegar ég fékk 2,5 punda urriða þarna á Ólafsfirðinginn minn í snarbrjáluðu veðri við endann á sefinu (þegar maður veður út álinn), man að flugan var varla lent þegar hann hrifsaði hana, þetta var stærsti urriði sem ég hafði þá fengið í vatninu, voða gaman.

Það sem gaf núna var afbrigði af Nobbler, uv grænt skott, rauð miðja og búkur uv svart chenille, klippt þ.a. búkurinn breikkar fram. Ég hef örugglega póstað mynd af honum hérna.

Ætlaði að fara með eldri stráknum mínum í Hlíðarvatn á miðvikudaginn en vegna óviðráðanlegra ástæðna verðum við að fresta því, vonandi verður ennþá góð veiði þarna, allavega ef marka má nýlegar fréttir úr vatninu.

Svona í lokin, ég sá makrílin vaða við Sæbrautina í síðustu viku.

20140803_200000

 

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.