Volinn í lok september.

Við feðgarnir vorum búnir að ákveða að prófa nýjan stað á hverju ári. Volinn varð fyrir valinu, við máttum veiða frá kl. 20 mánudaginn 26. september til 20 daginn eftir.
Við höfðum eiginlega ekki hugmynd um hvað við vorum að fara út í, ég spjallaði við veiðivörðinn viku fyrir ferð, hann sagði að það hefði ekki veiðst mikið í september en við værum heppnir, síðustu dagana hefði veiðst vel og það stórir fiskar. Leit vel út, mér láðist hins vegar að spyrja um hvaða flugur hefðu gefið best.

Við komum að veiðihúsinu upp úr kl. 20 og það var farið að rökkva, við urðum að sleppa fyrri áformum okkar um að skjótast og reyna við fiskinn í ljósaskiptunum vegna myrkurs og kulda.
Við skoðun á veiðibókinni sást að lang lang mest hafði verið veitt á maðk, nokkrir komið á spún og örfáir á flugu. Ekkert hafði þó veiðst síðustu 3-4 daga. Við vorum ekki nógu vel undirbúnir eins og kom í ljós, við vorum reyndar með eina kaststöng og einhverja spúna en það kom í ljós að spúnar fyrir silung, spinnerar og svoleiðis vantaði í safnið en eitthvað var hægt að nota.

Vopnaðir Nobblerum og fleiri straumflugum reyndum við fyrir okkur, púpur fengu líka að fljóta með en allt kom fyrir ekki. Vatnið er litað sem við reyndar vissum fyrir en því er erfitt að sjá fisk, við urðum ekki varir við neitt líf fyrr en við fórum á efsta staðinn, stað númer 39 þar sáum við fisk stökkva. Þetta var önnur heimsókn okkar að þessum stað þennan daginn, hann er alveg upp við hringveginn, stuttur hylur fyrir neðan foss, ég er ekki vanur maðkaveiðum en ég reikna með því að það þurfi að setja fullt af sökkum á línuna til þess að koma þessu hratt niður í hylinn áður en straumurinn tekur hann. Hugsanlega er líka veitt þar sem rennur úr hylnum neðar.

Allt kom fyrir ekki, ekki fékkst sporður úr ánni en gaman að kynnast nýjum stað og norðurljósin voru frábær.

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.