púpa

Tveir dagar í Hlíðarvatni í Selvogi

By | Veiði, Veiðiferðir, Veiðistaðir | One Comment

Er nýkominn úr tveggja daga veiði í Hlíðarvatn. Var að veiða frá 18 á sunnudegi til 16 á þriðjudegi.

Veðrið var þvílíkt fallegt á sunnudeginum þegar ég kom að vatninu, þvílík dýrð, ég hreinlega hélt að þetta gæti ekki staðist, einhver kæmi og ræki mig heim, þetta væru tóm misstök hjá mér.
Eftir að ég hafði komið mér fyrir í bústaðnum fór ég strax þar sem rennur úr vatninu við brúna. Þessi staður hafði gefið mér best þegar ég var þarna síðast um miðjan maí. Ekki fékk ég högg þarna og ekkert líf var að sjá. Ég sá svo seinna þegar ég skoðaði veiðibókina að ekkert hafði veiðst þarna lengi, hugsanlega er þetta bara vorveiðistaður. Ég endaði svo fyrsta kvöldið í Botnavíkinni og varð heldur ekki var.

Daginn eftir var veðrið áfram frábært, ég prófaði alla þessa helstu staði, Hlíðarey, Kaldós, Kaldós sker, Djúpanef og svo Botnavík, ég prófaði núna að veiða hana með hægsökkvandi línu. Einhvern vegin líkar mér aldrei við línur sem sökkva, finnst þær annað hvort of þungar og erfitt að vita hvenær búið er að draga þær nægilega inn til þess að kasta aftur. Eflaust er þetta spurning um þjálfun. Niðurstaðan var sú sama og kvöldið áður, fékk ekki fisk og varð varla var, ekkert líf að sjá.

Vel hefur veiðst í Hlíðarvatni í ár, Ármenn eru búnir að fylla eina veiðibók, á síðustu síðu hennar sá ég að alls voru skráðar 641 bleikja, 8 urriðar og 1 áll. Það var svo búið að skrá nokkrar síður í nýrri bók, hver síða með 25 línum!

Ég var ansi þreyttur eftir daginn og fór snemma í háttinn, ég vaknaði svo við rok og rigningu seinni daginn. Mér leist ekki á veðrið og fékk mér kaffi í rólegheitum og hlustaði á rás eitt. Ég gerði meira að segja nokkrar æfingar með morgunleikfiminni, í fyrsta skipti á æfinni. Sýnir hvað ég var lítið spenntur að fara út að veiða. Æfingarnar voru reyndar nokkuð góðar fyrir bakið á mér sem var frekar aumt eftir gærdaginn.
Ég fór svo beint í Botnavíkina enda voru allar færslur þaðan í veiðibókinni síðustu daga. Ekkert var að hafa í byrjun en par sem var að veiða innst í Botnlanganum fékk tvo fiska, þá færði ég mig nær þeim án þess að vera frekur. Stuttu seinna fór ég að fá tökur, þetta voru mjög nettar tökur, ég var ekki með tökuvara en þar sem ég kastaði beint undan vindi lagðist línan beint út og ég var alltaf í sambandi við hana. Það fór svo að ég náði þarna 5 bleikjum og missti tvær á 3-4 tímum. Ég endaði daginn svo í Hlíðarey án þess að verða var.

Minkur var að fara eftir bakkanum í leit að æti, nokkrar sögur hafa heyrst af sjálfsbjargarviðleitni hans. Ég settist á bakkann og hann kom mjög nálægt mér, svona stangarlengd í burtu. Ég var ekki alveg rór á meðan ég sat þarna, vissi ekki hvort hann væri að reyna að laumast í veiðipokann. Ég hafði rekist á þennan mink þegar ég var að keyra eftir veginum, hann kom lallandi eftir veginum  í áttina að  bílnum, ekki vitund hræddur, auðsjáanlega orðinn vanur manninum.

Góður veiðitúr var að baki sem sýnir að það er ekki veðrið sem stjórnar veiðinni….eða hvað?

 

 

Vorflugan (Trichoptera)

Inngangur

 Á Íslandi hafa fundist 11 tegundir vorflugna, af þeim finnast 7-8 allvíða um landið. Fullorðnar vorflugur minna helst á fiðrildi. Lirfurnar lifa bæði í straum- og stöðuvötnum. Tvær tegundir eru bundnar við straumvötn, sex finnast eingöngu í tjörnum eða stöðuvötnum og þrjár tegundir finnast bæði í straum- og stöðuvötnum.

Vorflugurnar hafa tvö pör vængja. Í hvíld liggja þeir líkt og ris (tjald) yfir afturbolnum. Útlit flugnanna er nokkuð breytilegt en algengast er að þær séu gulbrúnar eða móbrúnar að lit.

Klaktími tegundanna er mjög mismunandi milli tegunda og jafnvel innan tegunda, allt frá mars og fram í október. Æxlun á sér einnig stað á þessu tímabili og er eggjum orpið í hlaupkenndum massa sem festist við undirlagið t.d. botngróður.

 Lirfur vorflugna búa í sívölum hólkum (húsum) sem þær útbúa með því að líma saman með silki sandkorn eða gróðurleifar. Leng lirfanna er sjaldan meiri en 2cm. Algengast er að lirfuhúsin séu úr sandkornum hjá þeim tegundum sem lifa í straumvötnum en úr gróðurleifum hjá lirfum sem lifa við lygnari skilyrði.

Lirfurnar bera þrjú fótapör og greinilegt höfuð. Höfuðið er oftast sýnilegt þar sem það stendur fram úr húsunum og geta lirfurnar ferðast um með húsið áfast við afturbolinn. Fæða lirfanna er nokkuð mismunandi milli gegunda, sumar eru rándýr en aðrar lifa á rotnandi jurtaleifum eða skrapa þörunga af steinum.

Á öllum stigum lífsferilsins eru vorflugur mikilvægar sem fæða fyrir fiska.

Það er mjög erfitt að fylgjast með klaki vorflugnanna, þær klekjast ekki oft í miklu magni í einu. Venjulega klekjast þær undir kvöld eða eftir að skyggja tekur. Þegar þær klekjast út í birtu, koma þær upp eins og byssukúlur og fljúga yfir í gróðurinn.

Silungur borðar mikið af vorflugum, hann étur lirfurnar á botninum, púpurnar þegar þær skjótast upp af botninum til yfirborðs og fullvaxnar flugur annað hvort þegar þær eru að klekast út eða sem algengara er, þegar þær koma aftur til að verpa eggjum.

Það hvað vorflugurnar klekjast dreift yfir tímabilið, eykur vilja silungsins til þess að borða þegar hann fær tækifæri til, þ.e.a.s. hann borðar ekki eingöngu eina tegund fæðu sem mikið framboð er af þessa stundina.

Lífsferill vorflugu

Vorflugur hafa fullkomna umbreytingu (completa metamorphosis), þær lifa í vatninu sem lirfa, púpa sig og klekjast út sem fullorðnar flugur. Þær lifa í eitt ár. Eggin klekjast út á nokkrum dögum til nokkrum vikum eftir varp.

Lirfu stigið er lengsta tímabilið, þá taka þær til sín alla fæðu og allur vöxtur á sér stað.  Lirfurnar skiptast í tvær tegundir, þær sem byggja hús utan um sig og þær sem gera það ekki (case building og free living).

Hér á landi lifa eingöngu þær sem byggja sér hús. Þær líma húsin saman með silki og seyti (secretion). Ef þær búa í hröðu rennandi vatni eru húsin gerð úr sandi og steinvölum, þetta gefur þeim þann þunga sem þeir þurfa til þess að haldast á botninum. Þær sem búa í hægara vatni nota léttari efni, t.d. barrnálar, laufblöð eða með því að hola innan sprota og skríða svo inn.

Húsbyggjendurnir festa húsið við botninn og púpa sig í því.

Púpun er einnar viku til nokkurra vikna ferli. Vængir, fálmarar, fætur og annað er þá fullmótað. Þegar umbreytingunni er lokið er fullorðna dýrið inni í lirfuhýðinu. Með aðstoð loftbóla á milli þess og hýðisins, flýtur og syndir það til yfirborðsins. Venjulega tekur þetta skamman tíma en stundum er þetta hæg og erfið barátta.  Þetta ferðalag frá botninum til yfirborðsins er hættulegasta ferðalag lífs þess. Það fer hratt í gegnum yfirborðs filmuna á vatninu, vængirnir koma strax í ljós og það getur flogið í burtu næstum samtímis. Flugan flýgur í gróðurinn við bakkann, mökun á sér stað þar frekar enn í loftinu. Þó að flugan geti ekki tekið inn fasta fæðu, getur hún tekið inn raka. Venjulega fljúga flugurnar upp á móti straumi og vega þannig upp rekið þegar þær voru í ánni.

Eggjunum er verpt á nokkra vegu, sumum er varpað í klösum yfir straumnum, sum eru fest við gróður sem hangir yfir vatninu, sumum er verpt í yfirborð vatnsins; kvenflugan snertir þá vatnsflötinn til þess að skola burt eggjunum. Margar vorflugur kafa til botns til þess að verpa eggjunum, þetta er hættulegt ferðalag og flestar þeirra sem deyja þá, lenda í silungsmaga.

 Lirfur (sem byggja hús úr gróðri)

 Sumar lirfur lifa í stöðuvötnum og byggja hús sín úr grasstilkum. Aðrar lifa í hægum straumi, hús þeirra eru þéttari (more compact) með þyngingu (light ballast) þ.a. þær haldast á eða nærri botninum. Ef þær berast með straumnum, fljóta þær þar til þær komast aftur í öryggið á botninum.

 Það er auðvelt að bera kennsla á vorflugu í húsi, þær eru einu skordýrin sem lifa í vatni sem byggja sér hús fyrir utan snigla og auðvelt er að greina á milli, þær hafa haus og sex fætur. Stærð og litur er jafn misjafn og efnið sem húsið er búið til úr. Stærð 14 til 8, hnýtt á langan öngul og litur í brúnum og grænum tónum.

Image

Image

Image

 Púpan

Image

 

Image

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Púpustigið á stað í lirfuhýðinu, þar breytist lirfan í fullvaxna flugu. Á þessu stigi er hún örugg fyrir silungnum, hún er falin, varin og algjörlega hreyfingarlaus.

Klak  mismunandi voruflugutegunda skarast sem orsakar það að silungur er sjaldan eingöngu að éta ákveðna tegund af vorflugu en það gerist þó stundum að hann étur eingöngu ákveðna tegund vorflugupúpu, þá getur verið erfitt að finna eintak til að finna hvað hann er að éta, helst er að ná því úr maga fisksins.

Þegar púpan kemst upp úr vatnsfilmunni rifnar lirfuhýðið eftir endilöngu bakinu, flugan skríður út og flýgur af stað. Silungurinn étur oftast púpuna

Eftifarandi einkenni púpu vorflugu er hægt að nota til að bera kennsl á þær: þær lifa í vatni, langur fálmari, vængirnir falla eftir feitum búknum og enginn hali (posterior hooks or tails).

Stærð púpunnar er mjög mismunandi, frá míkró púpum upp í stóru haust púpunnar (giant fall caddis, er hún til á Íslandi?) sem er hnýtt á krók númer 4. Litir eru frá ljós gráum og brúnum, einnig skær grænir, appelsínugulir og gulir. Náttúran ver púpuna ekki með felulitum, heldur með því að láta hana vera fljóta að skjótast upp á yfirborðið og fljúga burt.

Gott er að nota króka á bilinu frá 12 til 16, rjómalitaða (cream), græna og í ýmsum tónum af appelsínugulum. Eftirlíkingin þarf að vera lífleg því púpan hefur svo marga hluta sem hreyfast.

Gott er að líkja eftir ferð púpunnar upp á yfirborðið þegar veitt er.

Flugan

Image

Tímabilið flugunnar er venjulega sumar og byrjun hausts, þó þær klekjist út allt veiðitímabilið. Flugurnar lifa í eina til fjórar vikur.

Hægt er að þekkja vorflugurnar á hýungnum/hárunum, löngum fálmara, stuttum, kubbslegurm búknum og því að þær hafa ekki hala. Ef þú vilt vera viss lítur þú einnig á vængina, þeir eru með fínum hárum. Vængirnir liggja eins og tjald yfir búknum.. Stærðin er frá míkróflugum upp í #4 risa., algengustu stærðir eru 12 til 16. Litirnir eru almennt gulbrúnir, brúnir og olífu í búknum og gulbrúnir, brúnir og gráir vængir.

Best er að veiða með flugum í stærðunum frá 12 til 16.

 

 

Heimildir

Handbook of Hatches eftir Dave Hughes.

Veiðiflugur Íslands eftir Jón Inga Ágústsson.

Myndir teknar af flugur.is, veidi.is og troutnut.com

 

 

 

By | Fæðan | No Comments