Sumardagurinn fimmti

Hvað sagði Saxi læknir: “Svoooo þreyttur…”. Það er akkúrat líðan mín og eflaust margra annara veiðimanna. Vetur konungur ætlar að vera lengi að lina tökin þetta árið. Kannski er maður bara orðinn svo spilltur af góðu sumrunum hér á undan (ekki í fyrra). Þegar ljósu hliðar hlýnunarinnar virtust vera að koma í ljós, þetta leit bara vel út.

En ég man alveg eftir 2. maí fyrir ekki mjög mörgum árum þegar ég fór á Þingvöll, bara af því ég hafði ákeðið það, það var norðan stormur og gekk á með éljum, það var svo hvasst að maður þurfti bara að lyfta stönginni og slaka línunni út. Fékk náttúrulega ekki högg.

Ofan á þetta bætist svo pestagangur, fékk eina hundleiðinlega pest sem virðist aldrei ætla að fara úr mér. Ég hefði pottþétt mætt á opnun Ellivatns á sumardaginn fyrsta ef heilsan hefði leyft það. Það eina sem maður getur leyft sér er að keyra upp að vötnunum til að minnka óróann.
Það var akkúrat það sem ég gerði í gær, skítakuldi og ekki kjaftur að veiða í Elliðavatni, mikið skildi ég menn sem nenntu ekki að fara út í svona kulda og mikið dáist ég að mönnum sem láta sig bara hafa það. Mér verður bara kalt af því að hugsa um það að vaða úti á Engjunum í öndunarvöðlunum mínum, ég er samt með allavega fjórar nýjar flugur sem ég þarf að prófa og nenni ekki lengur að hnýta án þess að geta prófað flugurnar.

Í hvern getur maður svo kvartað?
Auglýsi hér eftir mönnum eða konum með sambönd, komið því til skila að þetta gangi ekki lengur!!!

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.