Hlíðarvatn í Selvogi – maí 2016

Þegar þetta er skrifað eru um 300 fiskar komnir á land hjá SVH í Hlíðarvatni!

Við fórum í Hlíðarvatn 13-14 maí. Þetta var ferð fyrir kallana í fjölskyldunni, annar sonurinn, tengdasonur og tengdapabbi sonarins.
Við byrjuðum á því að grilla eins og venja er í þessum ferðum, lesa veiðibókina og spjalla. Þetta tók allt tíma og við vorum farnir út að veiða upp úr 21.
Veðrið var í kaldara lagi, sunnan vindur, beint af hafi og hitastigið ekkert sérstakt. Annars fer nú veðrið mikið eftir því hvernig veiðist.

Mosatangi var hátt skrifaður í veiðibókinni og þar sem við höfðum veitt best þar í fyrra fórum við beint þangað. Ekki var hann nú að gera vel við okkur núna, strákarnir fengu sitthvort höggið og einn smáfisk en ég varð ekki var. Mest prófuðum við Píkokk og Krókinn, flugur sem allajafna gefa vel. Veiðimaður sem var þarna á sama tíma og við fékk fisk á spinner.

Það var brunað yfir á Réttarnes og kastað inn í Botnavíkina, við höfðum vindinn í bakið þeim megin. Þó við sæjum nokkrar skvettur á yfirborðinu um tíma fengum við ekki fisk.

Reyndum svo við Kaldósinn og Innranef í myrkrinu í lokin en ekkert gerðist.

Við ákváðum svo morgunin eftir að reyna aftur við Mosatangann, hann hlyti að gefa núna en nei, ekki neitt. Við höfðum séð að veiðistaður sem kallaður var Stórabarð hafði gefið mjög vel hjá hollinu á undan okkur. Hann var ekki merktur á veiðikortið en sést á korti af vatninu, við vorum samt ekki alveg með á hreinu hvar hann var. Við keyrðum í áttina að meintu Stórabarði, staðurinn er líklega eitt af börðunum við vatnið þar sem rennur úr því, við brúnna. Þarna voru tveir Ármenn við veiðar, þeir voru nýkomnir og höfðu fengið þrjá fiska. Við létum þá í friði og fórum snemma í mat.

Eftir mat renndum við beint til Stórabarðs, þar var nú enginn við veiðar. Reyndar létum við einn okkar úr miðja vegu milli Stórabarðs og Mosatanga, hann hafði séð þar veiðilegan tanga sem hann langaði að reyna, það átti svo eftir að reynast honum vel því hann fékk þar 3,5 punda fisk á Píkokk. Við aftur á móti röðuðum okkur á bakkann vestan megin og vorum þannig með vindinn í bakið. Frumburðurinn fékk fljótlega fisk og svo annan, þegar hann var kominn með fjóra fiska blöskraði mér dónaskapurinn í honum að veiða svona mikið meira en faðir hans, ég skipti yfir í Pheasant Tail eins og hann, færði mig nær honum  og óð lengra út í vatnið eins og hann. Þá fóru hlutirnir að gerast, núna gat maður kastað þar sem fiskurinn var að skvetta og hann var að gera það reglulega. Þarna náði ég að lokum sjö fiskum og sleppti tveimur. Einn okkar var með kaststöng og flugu á flotholti. Hann fékk að lokum einn fisk. Þarna var flugustöngin með yfirburðina því stundum tók fiskurinn grannt og maður varð að kippa í um leið og fiskur nartaði í fluguna, þetta nart verða menn ekki varir við á kaststönginni, þungt flotholtið kemur í veg fyrir það.
Þeir sem veiddu þarna á undan okkur stóðu allir á bakkanum og veiddu, ekki veit ég hvort við vorum að ýta fiskinum lengra út í vatnið með því að vaða, held þó ekki, allavega fékk ég ekki fisk fyrr en ég óð út í vatnið til að geta kastað lengra.

Það hefur eiginlega aldrei heyrst almennilega í útvarpinu í veiðihúsinu, á einni af myndunum hér fyrir neðan má sjá hvernig því hefur verið reddað!

Frábær ferð að baki;  útivera, veiði, félagsskapur!

 

2016-05-14 17.28.20 HLidarvatn2016-01 HLidarvatn2016-6 HLidarvatn2016-9 HLidarvatn2016-21 HLidarvatn2016-3HLidarvatn2016-4HLidarvatn2016-41 HLidarvatn2016-52

 

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.