Við fórum 3 í Hlíðarvatn dagana 12-13 maí. Það má því segja að það hafi verið rúmt um okkur í Hlíð, húsi hafnfirðinga.
Veðrið var vægast sagt leiðinlegt, hávaða rok. Það var aðeins skárra seinni daginn, sérstaklega eftir hádegi.
Þegar veiðibókin var skoðuð sást að veðrið hafði haft mikil áhrif á veiðina, það veiddust tveir þann 10, enginn þann 11 og enginn kominn í hús þann 12 þegar við mætum.
Það var stíf austanátt og við bárum okkur niður miðað við það; Botnavík, Mölin, Hjalltangi og meira að segja Mosatangi, það var reyndar eini staðurinn sem við sáum líf fyrri daginn, smá kóð að skvetta í yfirborðinu.
Ekkert veiddist komudaginn og fórum við frekar snemma í hús. Það var í reynd fáránlegt að reyna að vaða í grjótinu í þessu hvassviðri.
Daginn eftir var reynt og reynt, mest í kringum Hlíð, loksins kom einn á Krókinn, rétt við húsið. Þó mikið væri kastað á sviðuðum slóðum fékkst ekki neitt.
Stungið var upp á að prófa Hlíðarey, hún hefði oft bjargað okkur á síðustu stundu. Það var einnig þannig í þetta sinn. Ég kastaði beint undan vindi frá litlu Hlíðarey og fékk þrjá í beit á Píkokk, svo datt það niður.
Sonurinn fékk svo einn á sama stað aðeins seinna, reyndar húkkaður í nefið.
Stærsti fiskurinn þarna (3 pund) var með sár á hliðinni og för eftir gogg þar í kring, þessi auðljósu V för eftir gogg. Hann var svo einnig með tvö sár á síðunni hinum megin eftir klær.
Þegar ég flakaði fiskinn sá ég að þessi sár náðu langt inn í flakið, því henti ég honum. Hefði kannski betur látið hann synda og jafna sig ef hann hafði getað það.
En eins og amma hans Flosa Ólafssonar sagði: “Ef að væri og ef að mundi, átján lappir á einum hundi”.
Enn ein skemmtileg ferðin í Hlíðarvatn að baki, því hvernig sem veðrið er, er alltaf skemmtilegt þarna.