Jæja, ekki hef ég nú bloggað mikið undanfarið, ég hef þó verið að hnýta hitt og þetta og eitt mörgum stundum í að búa til nýja flugu, farið í ótal hringi með efni og útlit. Get því miður ekki birt hana núna, eflaust finnst mönnum hún ekki merkileg fyrir mann að sjá m.v. vinnuna á bak við hana en svona er þetta bara.
Þó maður verði oft þreyttur og “nenni þessu ekki lengur” þá er þetta eitt af því skemmtilegra sem ég geri, þ.e.a.s. að spá í nýja flugu: efni, lögun, lit og skraut, virkilega skemmtilegt allt saman. Það er sagt að fluguveiði sé það skemmtilegasta sem hægt sé að gera standandi, þetta er eitt af því skemmtilegasta sem ég geri sitjandi 😉
Talandi um nýjar flugur, ég náði loksins að panta mér nayat hár á viðráðanlegu verði, keypti það frá foxy-tails.co.uk, ég hlakka til að prófa það í straumflugu sem ég hef verið að dunda mér við að skapa, ég hef birt myndir af henni hérna í blogginu undir heitinu tilraunir.
Jæja ég skellti í nokkrar rækjur, einfalt og fljótlegt, reynandi í sjógenginn fisk o.fl. Ég reyni þær líklega fyrst í Elliðavatni eins og flestar mínar flugur, eflaust ekki rétti vettvangurinn en hey ekki fer ég að bíða fram á haust eftir sjógengna fiskinum. Gæti líka prófað hana í Hlíðarvatni í Selvogi í júni en reyndar er fiskurinn þar ekki sjógenginn.
Þær eru gerðar úr útfjólubláu dubbi (UV) sem ég hef verið að prófa mig áfram með.