Þrjóskan borgaði sig

Ég fór í Elliðavatn í gær með nýja útgáfu af Nobbler,  hugmynd sem ég fékk þegar ég var að veiða þarna síðast, þá voru sýli í maga tveggja urriða. Hugmyndin var sú að hnýta gráan Nobbler og hanafjöðurs vöfin um búkinn myndu líkja eftir þverrákunum á sílunum, svo sem ekki nein bylting og margir prófað þetta eflaust en maður er alltaf spenntur að prófa nýjar flugur.
Ég fór út á engin og prófaði sömu staði og ég hafði farið á síðast, fékk reyndar tvö högg en engan fisk. Krókurin á annari flugunni hafði reyndar verið beygður niður af því hún var hætt að bíta og ég vildi ekki fleygja henni í vatnið og lét hana því í veiðiboxið aftur. Þegar ég skipti henni svo út sá ég hvernig í pottinn var búið og gat ekki annað en hlegið að vitleysunni í sjálfum mér að hafa ekki séð þetta þegar ég hnýtti fluguna á tauminn, flugan sést hér fyrir neðan.

2016-05-07 18_Fotor

Alltaf er maður að læra, ég hnýtti nýju fluguna á krók númer 8 og var með of þung augu, þar með var ekki skemmtilegt að kasta henni með sexunni, maður ætti svo sem að muna að það er best að nota krók númer 10.

Ég var samt ánægður með daginn, hafði orðið var við fisk en í þrjósku minni óð ég út að gamla vatninu og skipti yfir í Píkokk á dropper og Krókinn á enda. Viti menn ég fékk fisk, bjartan og fallegan urriða um tvö pund, hann var sterkur og tók vel í, þetta var skemmtileg barátta. Ég fékk svo þrjá til viðbótar þarna í vatninu, alla á Krókinn, það óvenjulega við þá var að aðeins einn þeirra var með þennan venulega gula lit, hinir voru allir silfraðir á litinn.

Ég var við veiðar frá 13 til 19, þar af um fimm tíma vaðandi í vatninu, það er fín líkamsrækt og með því lengsta sem ég hef verðið úti í vatninu í einu.
Það var sáttur veiðimaður sem fór heim um kvöldmatarleitið, svolítið aumur í bakinu en annars góður.

2016-05-07 18.36.26

 

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.