Skellti mér við einn hund í Hólmsána í gær, gekk á með vindhviðum en annars fallegt veður.

Byrjaði í beygjunni fyrir neðan síðustu brúna á hringveginum yfir ána. Skemmst frá að segja setti ég í tveggja punda urriða í öðru kasti á rauðan Frances, ég missti hann eftir skamma viðureign, hann tók nokkur stökk og hvarf. Ég bölvaði sjálfum mér fyrir að hafa ekki fest hann með því að reisa stöngina snöggt, ákvað með sjálfum mér að muna það nú örugglega næst.

Færði mig aðeins niður ána og setti í putta sem var sleppt.
Ég fékk félagsskap, þrír fullorðnir og eitt barn með tvær kaststangir. Þau fóru niður fyrir þann stað sem ég var að veiða á, ég veit ekki hvort þau fengu fisk eða ekki, heyrði einhver “læti” (eða háreysti eins og þeir segja í sundlaugunum) en sá þau ekki fara til baka með neinn fisk.

Jæja ég fetaði mig til baka og þegar ég kastaði á sama stað og ég hafði fengið tveggja pundarann, fékk ég samskonar fisk aftur og nú á svartan og grænan UV Nobbler, hann stökk eins og óður væri, fleytti næstum kerlingar á yfirborðinu. Það fór á sama veg og áður, ég reisti ekki stöngina því ég hélt hann væri fastur og hann losnaði eftir 6-7 stökk. Jæja, svona er þetta bara. Mig grunar að þetta hafi verið sami fiskurinn í bæði skiptin.

Fór upp fyrir brú og veiddi mig upp að rauðum og hvítum mæliskúr sem er við bakkann, fór ekki langt því það var farið að skyggja. Eftir nokkur hundruð metra og slatta af köstum settist ég niður og fékk mér nesti, ég hafði nú bara keypt mér rúnnstykki í Olís á leiðinni uppeftir svo ekki var mikið til skiptannna á milli mín og hundsins, nestispásurnar eru hápunktur ferðarinnar hjá hundinum, ég vona að hann fyrirgefi mér skortinn. Einn putti fékkst á þessum kafla.

Nú er það spurningin hvort þetta sé síðasta ferð sumarsins, ekki fór ég í Alviðru eins og ég hef gert undanfarin tvö ár, ekki hefur verið farið í þá ferð vegna aflabragðanna og ekki eru nú líkurnar betri í ár, ætli ég sleppi því bara ekki, enda er þetta full hátt verð fyrir sumarbústað.
Það er þó enn spurning hvort ég skjótist í Hlíðarvatn, er þar staður sem ég þarf að prófa betur, hugsanlega skýst maður einn dag án þess að gista, kannski ekki.

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.