Hlíðarvatn 30. september

Pennaletin hefur heltekið mig í sumar enda hafa þær fáu veiðiferðir sem farnar hafa verið ekki gefið mikið af sér, kannski meira um það seinna. Þessi lína er höfð með til að afsaka það að síðustu bloggfærslur eru næstum  eingöngu um Hlíðarvatn.

Hvað með það þá fór ég með frumburðinum að veiða á síðasta veiðidegi ársins í Hlíðarvatni. Ég hefði frekar valið sunnudaginn því verðuspáin var mun betri fyrir þann dag en laugardaginn. Hún hafði reyndar verið ágæt nokkrum dögum fyrr en svo á föstudeginum, daginn fyrir veiði var hún afleit. Sem betur fer rættist úr henni og við fengum milt og fallegt veður, við veiddum norðan megin í vatninu og þar var skjólsælt í norðan áttinni.

Það eina sem við gerðum á komudegi var að grilla okkur lambakjöt og spjalla saman inn  í nóttina. Við sváfum út og fórum að veiða um 10 leitið.
Krókurinn og Píkokk voru prófaðir: Mölin, Urðarnef, Urðarvík, Innra Nef, Kaldós, Kaldóshómi og Botnavík vestan megin gáfu ekkert. Rétt fyrir kaffi tók ég svo nokkur köst við Réttina hjá Stakkavíkurhúsinu, þá var rifið í, þungur dráttur og þegar hún kom upp sá ég að þetta hún var í riðbúningi, orðin svört á bakinu og vænn fiskur en svo rifnaði flugan úr. Nokkrum köstum seinna tók önnur af sama kaliber  og lit, þá slitnaði taumurinn!

Kaffi, hugsa málin og kortleggja næstu skref  og síðustu klukkutímana við vatnið, ég ákvað til  öryggis að skipta út taumnum og setja átta  punda taum undir og vera með átta pund í því taumefni sem ég bætti við. Kannsi var hinn taumurinn orðinn lélegur.
Við byrjuðum á Botnavíkinni, ég var í henni miðri en strákurinn prófði Skollabollana og þar um kring. Ég var kominn á þá skoðun að fiskurinn væri frekar í grunnu vatni en úti í dýpinu, það sýndi sig að ég fékk ekkert ef ég kastaði út á  dýpið, þegar ég svo kastaði í áttina að landi (ég var úti á tanga í Botnavíkinni) setti ég í 700 gramma geldfisk.
Síðasta klukkutímanum eyddum við svo á sama stað og ég hafði sett í fiskana tvo áður. Það fór líka svo að ég setti í og  landaði 700 gramma fiski í riðlitunum, alls ekki eins stór og hinir tveir en fínn fiskur.

Góður dagur var að kveldi kominn og heim fóru tveir þreyttir en ánægðir veiðimenn.

Hlíðarvatn, sjámst eftir nokkra mánuði.

 

 

Það er skemmtilegt að grilla í skammdeginu.

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.