Frábær afmælisdagur í Elliðavatni

Þá er maður búinn að fara í fyrstu veiðiferðina á þessu ári!

Það vill svo skemmtilega til að ég á afmæli í dag, sumardaginn fyrsta og það er akkúrat dagurinn sem Elliðavatnið opnar. Ég skellti mér því í veiði og var mættur á stæðið sem menn nota þegar þeir fara út á engjarnar um eitt leitið.
Ég hef keypt veiðikortið í mörg ár og þetta ár er engin undantekning, ég uppgötvaði að ég hafði gleymt veskinu mínu heima ásamt veiðikortinu. Ég tók sénsinn, það hefur ekki sést veiðivörður við vatnið í mörg ár. Þegar ég var svo að gera mig kláran rennir upp að mér vinalegur náungi og ég spyr hann um veiðina en hann hafði ekki frétt neitt af morgunveiðinni, hann segir svo “Ég sé að þú ert með límmiðann frá veiðikortinu á bílnum svo ég þarf ekki að spyrja þig um kortið”. Þarna slapp ég við skrekkinn. Ég held svo áfram að græja mig, kemur þá veiðimaður af engjunum, hann sagði að þetta væri dauft, hann hefi misst einn og ekki fengið neitt. Í þessu kemur svo veiðivörðurinn og segir að það hafi lítið veiðst um morguninn. Ekki góðar fréttir en ekki stoppar það mann.

Ég byrjaði neðst í ánni án þess að verða var og fór svo á gamalkunna staði á engjunum. Ekkert gerðist til að byrja með en svo fékk ég högg, jæja þetta er ekki alveg dautt hugsaði ég með mér og veiddi áfram. Þá setti ég í fisk en hann var ekki lengi á, ég var með hjól sem ég hafði ekki notað í tvö ár og ég hafði ekki skipt um taumefni og það slitnaði eins og tvinni. Eins og ég hef nú lesið margar greinar um að taka á taumefninu og yfirfara búnaðinn.

Ég skipti yfir í nýtt 8 punda taumefni og setti undirsvartan og grænan UV Nobbler. Áfram veiddi ég en varð ekki meira var, ég þóttist vita að morgunvaktin hafi tekið engið nokkuð vel og af fréttum að dæma var ekki mikil veiði. Ég ákvað því að breyta um kúrs og fór norðar á engin, þar er allt svæðið grunnt ætti því að vera fyrr að hlýna. Nú breyttist dæmið heldur betur, ég setti strax í fisk og var svo reglulega að fá fisk. Ég sikksakkaði yfir á bakkann austan megin. Þegar ég var kominn alveg yfir að bakkanum hinu megin festi ég fluguna á steini og losaði með því að toga í hana. Bugurinn bognaði upp og bitið var farið úr oddinum, ég gaf henni samt séns, rétti buginn og brýndi oddinn, hann var þó ekki sérstaklega beittur. Nú var mér refsað fyrir að huga ekki betur að búnaðinum, ég setti nefnilega í stærsta fiskinn og hann var alveg snarbrjálaður, hoppaði , skoppaði og synti á sporðinum, alveg óstöðvandi þar til flugan losnaði úr!

Nú var ég búinn að gera tvenn mistök við útbúnaðinn og var refsað fyrir þau bæði. Maður lærir bara af þessu.

Dagurinn endaði með fjórum urriðum frá rúmi pundi upp í rúm tvö pund og tvo sem  ég  missti. Veðrið var mjög gott og miklu betra en spáin hafði sagt til um. Ég get ekki annað en verið ánægður með þessa afmælisgjöf frá vatninu og þennan frábæra dag.

 

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.