2-0 fyrir vötnunum

Ég og Skuggi fórum í veiðiferð á sunnudaginn, meira að segja í tvö vötn. Niðurstaðan varð þó önnur en lagt var upp með, lærði þó allavega eitt sem gæti komið sér vel, þó ekki veiðitengt……og þó.

Skellti mér í Kleifarvatn, mættur á staðinn kl. 16 og fór á tangann norðan megin eins og ég geri svo oft. Ég sá til nokkurra veiðimanna við vatnið, allt frá stökum mönnum upp í fjölskyldur með sólstóla og skemmtilegheit. Einn var með tvær litlar bleikjur í pokanum, veit ekki hvor hann fékk þær á flugustöngina eða beituna.

Ég varð aldrei var og var varið að leiðast þófið þegar strákurinn minn kom upp eftir til að veiða með mér, við töluðumst við í símann og ákváðum að færa okkur á annan stað. Ég gekk því á móti honum og ræddi við hann í símann á meðan hann keyrði stuttan spotta, allt í einu bölvar hann, var búinn að festa sig í byrjun afleggjarans út á tanga, svo sem ekki fólksbílavegur en ég sá nú samt svartan BMW sem hafði farið alla leið. Símtalið hafði sem sagt truflað hann og hann keyrði of hægt á versta stað á afleggjaranum.

Ég gekk þvi til móts við hann, bíllinn sat fastur á maganum ofan á mölinni, tilraunir hans höfðu aðeins grafið hann meira niður. Við grófum frá dekkjunum og reyndum aftur, hreyfðist ekki. Ég veifaði upp á veg til nokkurra jeppa sem ég sá keyra þar (c.a. kílómeter í burtu).

Það er ekki hægt að kvarta yfir því að fólk sé ekki hjálpsamt!

Erlend hjón með barn voru fyrst á vettvang á liltum bílaleigujeppa, þau buðu fram aðstoð sína, hvorki þau né við vorum með spotta svo reyndur var rafmagnskapall, þrefaldur, að sjálfsögðu slitnaði hann.

Næst kom VAN fullur af ítölum, fólkið ætlaði aldrei að hætta að streyma út úr bílnum, jæja ein konan drifin inn í bílinn og restin á húddið að ýta, konan botnaði bensínið og bílinn sat sem fastast. Miklar umræður hjá Ítölunum á þeirra ástkæra ylhýra en ekki töluðu þeir orð í ensku. Mér datt í hug lagið “What did you learn in school today”, þar sem sungið er um ítalska karlmenn “and Italian men can make love all alone”, þorði þó ekki að spyrja. Ég vissi ekki alveg hvað svona ítölskum karlmönnum dytti í hug að gera til að leysa vandamálið og var ekki viss um að við hefðum stjórnina en það voru áhyggjur að óþörfu eins og 95% allra áhyggna eru (bandarísk rannskókn).

Á meðan á þessu stóð hafði laumað sér fólskbíll með íslendingum á svæðið, þeir tóku myndir í gríð og erg. Þegar Ítalirnir gáfust upp komu þeir til okkar og fóru að tala um heimska.is og annað í þá áttina. Pirrurnar fóru í gang hjá okkur en sonur minn sem var bílstjórinn tók þessu með stakri ró, ég heyrði reyndar ekki fyrr en eftir á hvað þau sögðu, jæja þau sögðu okkur að tjakka upp bílinn og láta mölina undir dekkinn, þannig hækkuðum við hann eins og hann hefði aldrei grafið sig niður og sat þar af leiðandi ekki lengur fastur á maganum, já þetta svínvirkaði hjá þeim. Þau hefðu nú kannski mátt aðeins slípa til “notendaskilin” en ráðið virkaði. Bingó vorum lausir.

Hættum við Kleifarvatn og brunuðum í Úlfljótsvatn sem hefur svo oft gefið okkur góða veiði undanfarið, þegar á leiðarenda kom var lítil vindur eða logn og rigning, alveg sama veðrið og síðast þegar ég veiddi ekkert sérstaklega. Nú núlluðum við líka.

Stákurinn var að gera tilraunir með myndavél, svipaða og gopro til að taka myndir í vatninu, það þarf að finna betur út úr flot og stýringar á apparatinu úti á vatninu en þetta var nú bara fyrsta ferðin. Apparatið tók fínar myndir í vatninu, enginn fiskur sjáanlegur þó.

Lærdómur ferðarinnar var hvernig losa á bíl sem situr fastur á maganum, einfalt ráð en svínvirkar, ég hef ekkert verið að jeppast svo hafði ekki hugmynd um þetta, gæti komið sér vel í einhverri veiðiferðinni.

 

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.