Veiði og aðsókn í Hlíðarvatn hefur farið minnkandi undanfarin ár, allavega ef litið er áratug eða meira aftur í tímann, veiðin virðist eitthvað hafa glæðst síðasta ár en svo líklega dalað aftur þetta árið (veiðitölur vantar fyrir 2014).
Í nýjustu flugufréttum (flugur.is) er minnst á Hlíðarvatn, þar er talað um að 1983 hafi Ármenn veitt 2.732 fiska og Hafnfirðingar 1.894. Veiðimaður sem fór í skoðunarferði í vatnið 9. ágúst í sumar skoðaði veiðibækur, þá höfðu Ármenn veitt 190 fiska og Hafnfirðingar 127, það er himin og haf á milli þessara tveggja ára!
Ég er ekki gamall í hettunni hvað varðar Hlíðarvatn en hef ég heyrt útundan mér frá eldri veiðimönnum að aðsókn hafi verið meiri hér áður.
Ég fer allt of sjaldan í vatnið, ekki nema 1-2svar á sumri. Þegar ég fer er upplifunin eiginlega alltaf sú sama, mér finnst of lítið að vera bara í einn dag, of lítill tími til að prófa nýja staði. Mér þykir vænt um vatnið og mér finnst það skemmtilegt og þægilega lítið. Það að maður fer svona sjaldan þýðir auðvitað að maður lærir ekki almennilega inn á vatnið þó að það séu til góðar leiðbeiningar á vefnum og veiðimenn séu mjög duglegir að ráðleggja ef eftir því er leitað. Ein ástæða þess að ég fer svona sjaldan er að mér finnst verðið vera of hátt m.v. veiði, jú ég veit að það fylgir með bústaður en þeir eru nú reyndar örugglega búnir (flestir) að borga sig upp á 40+ árum.
Svo grunar mig að flest leyfin séu keypt af félögum veiðiklúbbanna sjálfra og að þetta sé að grunninum til sama fólkið sem fer þarna ár eftir ár. Það verður líka að segjast að meirihluti félaga í veiðifélögunum eru ekki unglingar lengur.
Ég ræddi nýlega um Hlíðarvatn við vinnufélaga og hann sagði “Er ekki svo lítil veiði þarna”? Þetta held ég að sé “orðið á götunni” og menn fara ekki þarna því þeim finnst verðið of hátt m.v. veiði.
Veida.is bauð upp á það síðasta sumar að ef keypt væri eitt leyfi á ákveðnu tímabili fékkst auka dagur seinni hluta sumars, einnig voru þeir með leyfið þúsund krónum lægra en hinir seinni part sumars.
Ég held að gróft sagt megi segja að maí og júní hafi verið uppseldir en júlí-september lítið sem ekkert seldir, við erum því að tala um að 3/5 til helmingur veiðileyfa hafi ekki selst. Mikið hefur verið í umræðunni um laxveiðina sérstaklega að lækka þurfi verð, menn þurfi að laga sig að aðstæðum. Ég spyr er ekki sama upp á teningnum í Hlíðarvatni? Þurfa menn ekki að lækka verð, laða að nýja veiðimenn og finna nýja “vini” vatnsins.
Ég held að báðir aðilar myndu græða á þessu, ég er ekkert viss um að veiðifélögin myndu selja fyrir lægri upphæð þó þau gerðu þetta, þó að þau gerðu það auðveldara að skjótast þarna dagspart eða kvöld, menn gætu jafnvel veitt eitthvað inn í nóttina eins og á Þingvöllum. Fleiri veiðimenn myndu veiða í vatninu, veiðitölur myndu hækka og það yrði hluti af veiðisvæðum fleiri veiðimanna. Ég segi fyrir mig að borga 5-6.000 krónur fyrir að skjótast kvöldstund í vatnið eða hluta úr degi er of mikið, ég fer frekar í góða veiði í eitthvað af vötnunum á Veiðikortinu, tímarnir hafa breyst.
Jæja hvað er til ráða. Þegar stórt er spurt er lítið um svör en mér dettur eftirfarandi í hug:
- Lækka verðið.
- Gefa afslátt ef allar stangir félagsins eru keyptar ákveðinn dag.
- Gefa meiri afslátt ef allar stangir félagsins eru keyptar í tvo samliggjandi daga.
- Gefa afslátt er keyptir eru tveir samliggjandi dagar í einu (gæti verið ein stöng).
- Selja saman tvo samliggjandi daga í einu seinni hluta sumars á verði eins (tveir fyrir einn).
- Kynna vatnið hjá veiðiklúbbum stærri fyrirtækja og hvar sem næst í veiðimenn, þetta er jú fornfrægt bleikjuvatn.
- Selja hálfa daga fyrir þá sem vilja skjótast í vatnið (eða hafa verðið það lágt að menn “geti” skotist).
- Og svo aftur, kynna vatnið fyrir nýjum veiðimönnum.