Ég og eldri strákurinn minn fórum í skemmtilega ferð í Hlíðarvatn 4-5 ágúst.
Veðrið var hvassara fyrri daginn en lægði svo og snerist daginn eftir. Það var skýjað en rigndi ekki. Þá var vindurinn 2-3 m/s niður í logn.
Það var fullt af flugu á vatninu, mjög litlar flugur sem ég veit ekki hvað heita, ekki þó mýflugur held ég, svo sá ég vorflugu og loks hrossaflugu “skoppa” skemmtilega eftir yfirborði vatnsins (spurning um að prófa Daddy Longlegs eins og bretarnir?)
Þó að þetta hafi ekki verið mok er þetta skársta ferð mín í Hlíðarvatn í nokkur ár.
Við fórm fyrst í Hlíðarey og þar tók strákur tvo hálfspundara sem fengu líf. Ekki veiddist meira þann daginn, við komum reyndar frekar seint og byrjuðum ekki að veiða fyrr en eftir klukkan níu.
Daginn eftir missti ég þokkalega bleikju í Hjalltanga í vitleysu og bulli, var með taum upp á tvær stangarlengdir og tökuvara. Þegar ég setti í fiskinn gat ég ekki dregið tökuvarann (Think I’m a bobber) í gegnum lykkjurnar og ekki var hægt að stranda fiskinum því það voru klettar allt í kring.
Við fengum hvor um sig tvær bleikjur á Mölinni við Hafnarfjarðarhúsið, þar sem við gistum. Ég hef aldrei áður fengið fisk á mölinni.
Botnavíkin gaf mér eina sem tók hressilega í og hélt ég að þetta væri miklu stærri fiskur en þessi tvö pund sem hann reyndist svo vera. Í víkinni voru fimm veiðimenn á sama tíma, líklega allir sem voru að veiða í vatninu þennan dag. Frétti að veiðimaður í Ármannahúsinu væri með 10 fiska í pokanum sínum. Annar veiðimaður var með tvo og annar einn.
Eftir mat var farið í Kaldósinn, og fengum við sitthvorn fiskinn þar. Á þessum tímapunkti var dottið í logn og uppitökur úti um allt, það var virkilegar erfitt að rífa sig upp og fara heim, hefði alveg þegið að vera þarna svona 2-3 tíma í viðbót.
Niðurstaðan voru 9 veiddir fiskar sem er mun betra en undanfarin ár.
Krókurinn og Peacock voru að gefa þetta, hvað annað.
Veiðibókin sýndi að þeir sem höfðu veitt þarna höfðu fengið alveg þokkalegan afla, það voru þó göt í bókinni og ekki veitt alla dagana.
Dagurinn þarna kostar núna kr. 4.000 virka daga og 5.000 um helgar, tekur ekki langan tíma að skjótast 😉
Frábær veiðiferð í frábærum félagsskap og góðu veðri.