Við strákarnir, feðgar og tengdasonur skelltum okkur í Hlíðarvatn á mánudaginn.
Ferð sem maður hlakkar til að fara ár hvert.
Það var nú frekar kuldalegt þegar við mættum, vindur og kuldi. Við byrjuðum á Mölinni og fórum svo í Hjalltangann. Eftir það fórum við í Hlíðarey, þá loks kom fiskur á land og reyndist það eini fiskur dagsins.
Morguninn eftir fórum við í Botnavíkina og Skollapollana sem voru alveg dauðir, ég mældi ekki hitann á vatninu en það var ansi kalt. Við veiddum okkur svo yfir í Kaldóshólmann. Það var alveg sama sagan á öllum þessum stöðum, ekki högg.
Eftir hádegið fórum við yfir á Mosatangann og þá fór eitthvað að gerast. Ég byrjaði á stað ofan í vatninu sem gaf mér síðast rúmlega 3ja punda fisk, þetta er frekar framarlega á tanganum, ég varð ekki var þarna, tek ég þá eftir því að frumburðurinn og tengdasonurinn voru í fiski, ég mjaka mér því í áttina til þeirra kastandi á meðan. Þegar ég er kominn til þeirra er hann kominn með 3 fiska og fiskur að vaka
um allt. Þarna fengum við samtals 8 fiska, sitt hvoru megin við pundið. Mosatanginn er þekktur sem vorveiðistaður enda grunnt og hlýnar fyrr, þar er líka svartur sandbotn sem ætti ekki að draga úr hitanum.
Sælir veiðimenn fengu sér grillaðar pylsur í hádegismat og lögðu á ráðin, ákveðið var að fara aftur í Hlíðarey sem gaf okkur í gær en þegar út var komið var eyjan upptekin, við ákváðum því að fara á svæðið í kringum Innranef sem við höfðum sleppt vegna tímaskorts. Ég óð út í Kaldóshólma og fékk þar rúmlega punds fisk. Frumburðurinn fékk á sama tíma rétt rúmlega 4ja punda bleikju í Kaldósnum, hann sá hana koma og taka fluguna, mjög spennandi.
Tengdasonurinn hefur ekki mikið veitt um æfina, hann veiddi með spún, setti í einn missti.
Yngri sonur minn varð að fara klukkan eitt á þriðujeginum og rétt missti því af veiðinni.
Flugurnar sem gáfu voru peacock, krókurinn og ný fluga sem er á reynslu hjá mér sem hefur vinnuheitið Gullkrókurinn, mjög skemmtilegt þegar flugurnar manns gefa 🙂
Veiðimaður í Ármannahúsinu fékk tvo sjóbirtinga, annan 4,5 pund, hann sagði okkur líka að veiðin væri búin að vera treg vegna kulda og veiðibókin væri á fyrstu blaðsíðu en það væru venjulega komnar nokkrar síður á þessum tíma, það passaði við veiðibókina hjá okkur í Hlíð, hún var líka á fyrstu síðu.
Gashitarinn í húsi SVH hefur alltaf verið eitthvað vangæfur en hefur þó alltaf hrokkið í gang að lokum, það var ekki þannig núna, við náðum hreinlega ekki að kveikja á honum, er ekki kominn tími til að skipta honum út? Það var miði upp á vegg sem á stóð að vegna kulda væri ekkert vatn í húsinu, við hugsuðum að það myndi nú reddast en það er merkilegt hvað það er óþægilegt, sérstaklega þegar frá líður og ekkert nothæft klósett í húsinu. Slangan út í vatn hafði verið fjarlægð svo ekki var hægt að koma vatninu í gang, hugsanlega eru menn hræddir um frostskemmdir en þetta var ekki svona í Ármannahúsinu og vatnið þar kom þegar það frostinu slotaði fyrir nokkrum dögum. Annars var húsið hreint og fínt eins og alltaf.
Alltaf er nú gaman að koma í Hlíðarvatn, heildar aflinn var 10 fiskar, 6 af þeim var sleppt, þeir voru undir pundinu í þyngd.
Ætli maður panti ekki júní næst, maður er orðinn soddan kuldaskræfa.