Elló 1. júní

Hvernig er þetta með veðurspána, getur hún aldrei staðist!

Fór í Elliðavatn í dag af því veðurspáin hafði sagt að í dag yrði skásti dagurinn, 11 stiga hiti og vindur 4-5 m/s. Það klikkað heldur betur. Ég var svo sem ekki með hitamæli á mér að það blés ansi hressilega á köflum og það var frekar kalt þegar sólin hvarf. Geta veðurfræðingar ekki áttað sig á því að það er kominn tími á sumarveðrið!

Jæja, óð út í við Bugðuós, krían var þarna út um allt í æti en ekki fékk ég neinn fisk þó ég kastað á sömu staði og hún var að athafna sig á. Ég beygði svo snarlega til hægri í áttina að stíflunni, veiddi mig inn eftir og beygði svo til vinsti út í vatnið til móts við Krínunes. Þarna var ég svo að plokka upp einn og einn fisk, plokkfiskur eins og sumir segja, á þessu svæði fékk ég þrjá fiska og missti tvo. Vatnið þarna var nokkuð heitt. Ég tók svo einn nær mínum venjulegu miðum á engjunum. Einhverra hluta vegna fékk ég engan fisk á mínum venjulegu veiðistöðum þarna á engjunum, reyndar er svo hátt í vatninu að sefið sést ekki og þar mín venjulegu viðmið og ég fór því ekki á alla staðina þess vegna. Eða kannski datt þetta bara niður um þrjúleitið, akkúrat þegar ég var kominn þarna. Rauður og grænn útfjólublár nobbler gaf þessa fiska.

Ég prófaði aðeins við Elliðvatnsbæinn en varð ekki var, ég reyndi líka á ströndinni vestan við bæinn en varð heldur ekkert var þar.

Að lokum tók ég nokkur köst rétt fyrir kl. 19 við brúnna, ekki varð ég heldur var þar en þá voru komnir þarna fimm aðrir veiðimenn, þegar ég var svo að taka saman fékk einn þeirra að því er virtist stóran fisk, heyrði hann svara því til að flugan væri eitthvað hvítt og rautt.

 

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.