Ég og sonur minn keyptum leyfi í Jónskvísl og Sýrlæk seinni hluta júlí mánaðar.
Það æxlaðist þannig að öll fjölskyldan mætti á staðin, þ.e.a.s. ég og spúsa mín og þrjú barna minna með mökum og börnum.
Þetta var hin skemmtilegasta ferð þó veiðin hafi ekki verið mikil, fengum tvo staðbundna urriða úr sitt hvorri ánni.
Sjóbirtingurinn var ekki mættur á svæðið, bændur á staðnum sögðu okkur að þeir vildu ekki að það væri selt í þetta í júlí svo manni fannst maður nú aðeins vera snuðaður, jú fengum stórt veiðihús en það er ekki aðgengilegt nema vera a.m.k. á slyddujeppum. Einnig vantaði veiðibók sem átti að vera við bæinn Fossa.
Jæja en allavega var þetta skemmtileg ferð í alla staði.
Næst yngsti veiðimaðurinn fékk stærri fiskinn, 1.1 kíló á spún með aðstoð frænku sinnar reyndar.
Ég gúgglaði vefinn í tætlur í leit að myndum af veiðihúsi, veiðistöðum og aðstæðum en ekki var mikið að sjá, alltaf sömu myndirnar, til er facebook síða hjá svfk en hún hefur lítið verið uppfærð og myndir af svæðinu á síðunni þeirra virkar ekki.
Einnig vildi ég vita um aðgengi og t.d. veginn að veiðihúsinu, það eru engar upplýsingar um það, heldur voru veiðistaðir ekki merktir. Þetta skiptir máli fyrir menn sem ekki hafa komið áður á staðinn en við vitum meira núna.
Af því fjölskyldan var með kom upp umræða sem aldrei myndi koma upp ef eingöngu karlmenn væru í húsinu en það var sem sagt verið að spá í að gardínurnar væru ekki í sama lit og eldhúsinnréttingin, þær voru fjólubláar en innréttingin blá. Ég sé þetta seint vera pælingu hjá veiðikörlunum en gaman af þessum muni á kynjunum.
Við erum vanari að veiða í stöðuvötnum en rennandi vatni, því var þetta að vissu leyti lærdómsrík ferð, t.d. fékk ég minn fisk í Sýrlæknum í utanverðri beyju, akkúrat eins og maður hefur sérð á myndböndum og lesið um í veiðibókum en þarna fékk maður staðfestingu á því að þessi staður virkar. Þessi fiskur kom á fluguna Krókinn, seinni fiskurinn kom svo í Eyvindarhyl á spún.
Ég vildi gjarnan vera þarna upp úr miðjum ágúst eða í september þegar það er sjóbirtingur út um allt.
Set inn slatta af myndum, m.a. myndir af slóðanum að veiðihúsinu.