Veiðiferðir og veiðiferðir.

Ég er búinn að fara í nokkrar veiðiferði undanfarnar vikur.
Ég hef bara ekki nennt að skrifa um þær, líklega vegna þess að veiðin hefur ekki verið upp á marga fiska.

Fór í Elliðavatn með öðrum stráknum mínum fyrir nokkrum vikum, við vorum voða duglegir og óðum um Engin fram og til baka án þess að verða varir.
Enduðum svo á því að vaða út að gamla vatninu og þar fékk ég einn fisk.

Fór með gömlum vinnufélaga og syni hans í Framvötn. Ég hlakkaði mjög til því ég hafði ekki farið þarna áður. Ég hafði ekki treyst mér að fara þetta á mínum slyddujeppa, það kom svo í ljós að það er alger vitleysa því þarna var Suzuki Vitara og þá fer minn þetta alveg, kannski spurning um smá kafla upp að Ljótapolli.
Það kom mér á óvart hvað það var mikil umferð þarna, ég sá margar rútur keyra framhjá og marga túrista á jeppum.
Við fórum fyrst í Frostastaðavatn, hjá hrauninu. Þarna fékk ég 13 fiska en sleppti þeim öllum vegna stærðar.
Næst var farið í Ljótapoll, mér hafði verið sagt að nota þar sökklínu, ég tók því með mér sökklínu sem ég hafði keypt í Veiðihorninu (því sú gamla var svo leiðinleg) en mikið var nú leiðinlegt að kasta henni, ég braut svo toppinn á stönginni við löndun á fyrsta fiskinum. Menn eru ekkert að fara upp úr gígnum nema í lok dags en ég neyddist til þess, því auka toppurinn var uppi í bíl. Ég tók með mér aðra stöng með flotlínu sem ég ætlaði að prófa. Það fór svo þannig að ég notaði hana mest, mér finnst að það ætti alveg að duga að vera með intermediate línu þarna eða bara flotlínu, þetta var meira spurning um að kasta nógu langt út en að láta þetta sökkva svo mikið. Þegar upp var staðið var það spúnninn sem gaf mest, 12 fiska, ég var með 4 á fluguna.

Ég fór á “laxaslóðir” í Hólmsá og Elliðavatni með Skugga fyrr í þessari viku. Ekki sá ég lax við brúnna svo ég fór á stað í Hólmsá sem ég veit að geymir oft lax og endaði svo túrinn við Gunnarsholt í Hólmsánni. Þar var fyrir annar veiðimaður, þetta er jú orðinn þekktur staður, hann hafði ekki fengið neitt og eins fór fyrir mér.

Ég fór svo í Elliðavatn í gærkvöldi, frétti af stökkvandi laxi við brúnna og byrjaði því þar, því næst var farið út álinn og kastað í áttina að sefinu. Tvisvar var togað í línuna en ekki náði ég fiski. Veðrið var rosalega fallegt, logn og falleg kvöldsólin, gott fyrir sálina og stundum er það allt sem þarf.

Þar sem við hjónin erum aftur komin á tvo bíla, get ég spilað mína músík hátt á leiðinni og það var það sem ég gerði, núna var það Spotify sem sá um að streyma til mín rokki og róli.

Ég og strákurinn erum leita að einhverri nýjum veiðistað til að prófa, stað með einhverri tegund af laxfiski sem kostar ekki of mikið, 1-2 daga, ef menn geta mælt með einhverju þá er það vel þegið.

2 Comments

  • Skemmtileg samantekt, hvaða flugur gáfu þér þessa fjóra í Ljótapolli? Pollurinn hefur einhverra hluta vegna alltaf orðið útundan í Framvatnaferðunum, þarf endilega að bæta úr því við tækifæri.
    Bestu kveðjur og takk fyrir skemmtilegar færslur,
    Kristján Friðriksson

    • Silungsveiði says:

      Sæll og takk fyrir kveðjurnar.
      Og ég sem hélt að þið væruð búin að skanna öll vötnin þarna.
      Ég var með Nobbler, ég man ekki alveg hvaða lit en litir sem nota oftast eru rauður eða svartur með grænu skotti. Ég er nýbúinn að hnýta gulan Nobbler með svörtu baki (tússað), kannski var ég með hann.
      Ég man að einn okkar fékk á svartan Nobbler, hann var reyndar með púpu ofar sem dropper (man ekki hvaða), hugmyndin var að Nobblerinn væri að elta púpuna.
      Ég var svo bara mest með flotlínuna, kannski myndi maður taka hægsökkvandi línu næst, annars var málið að kasta eins langt og maður gat og láta sökkva (c.a. stangarlengd í taum).
      Merkilegt að fiskarnir sem við tókum voru allir af sömu stærð, kannski allir úr sömu sleppingu.
      Ég er ekki búinn að smakka þessa fiska en þeir voru fallega rauðir að innan sem er ekki sjálfgefið með urriðann.
      Hlakka til að lesa blogg frá þér um Ljótapoll, á þessu ári eða því næsta 🙂

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.