árveiði

Baugstaðaós 12. október 2019

By | Nýjast1, Veiðiferðir, Veiðistaðir | No Comments

Við feðgarnir fórum okkar aðra ferð í Baugstaðaós núna í október.

Við fórum sem sagt líka í september í fyrra þó ég hafi ekki skrifað um þá ferð. Við vorum reyndar svo óheppnir þá að veðrið var það allra versta það sumarið, sunnan beljandi stormur 15 m/s ef ég man rétt.
Þar fyrir utan var kortið lélegt og við misskildum hvar ósinn var og fórum ekki í hann. Þó komu tveir fiskar á land.

Eftir að hafa talað við menn sem höfðu farið þarna nokkuð oft vissum við hvar mistökin lágu og hvar ósinn var og líka hver væri stysta leiðin að ósnum.
Ég hafði póstað á facebook og fengið nokkur svör um veiði á þessum tíma. Helstu svörin voru þau að það væri best að veiða í ánni sjálfri í kringum Baugsstaðarjómabúið gamla.
Við byjuðum að veiða um morguninn fyrir neðan veiðihúsið en þar sem það var ekki að gefa neitt færðum við okkur að rjómabúinu, þar var heldur ekki neitt að gerast.

Við vildum prófa ósinn, svona til að hafa prófað hann og vita hvernig landið lægi því við höfðum líka heyrt að sumir veiðimenn lægju allan daginn niðri í ós.
Lagt var hjá bænum Baugsstöðum og gengið þar niður í ós. Við vorum nokkuð snemma, um 3 tímum á undan flóði, auðvelt var að vaða álana sem voru rétt upp í kálfa. Þegar niður í ós var komið sáum við það sem kallað er fossinn og vissum því hvar sjálfur ósinn var. Við köstuðum í ósinn fyrir neðan foss á meðan við biðum eftir flóðinu. Gaman er að fylgjast með náttúrunni og sjá breytinguna á sjávarhæðinni þegar flæðir að. það var háflóð um 17:30. Eftir því sem hækkaði fluttum við okkur ofar í ánna og veiddum meðfram hraunkantinum sem þarna er en ekki kom neinn fiskur kominn á færið.

Nokkru seinna ákváðum við að fara til baka því það dimmdi um sjöleytið. Þá uppgötvuðum við að “það hafði flætt að”, já við uppgötvuðum að litlu álarnir virtust vera stórar ár núna. Það var ekkert annað að gera en að prófa að vaða yfir þá og við komumst auðvitað yfir þó talsvert væri hærra í þeim, munur á flóði og fjöru er 2,3,4 metrar, mismunandi eftir tunglstöðu. Þetta sýnir manni að maður þarf að þekkja inn á staðina en það kemur jú smá saman.
Þegar við vorum að taka saman áttum við gott og lærdómsríkt spjall við bónda sem kom til að forvitnast um hvaða vitleysingar hefðu keypt leyfi svona seint, það voru þó ekki hans orð.
Lærdómsrík ferð, næst verðum við að fara fyrr, verst er að allir góðu bitarnir eru farnir þegar leyfin fara á vefinn og verðið er ekkert lægra seinni partinn þó mun verri líkur séu á veiði á þeim tíma.

En góð ferð eins og allar veiðiferðir eru.